Talsvert hefur dregið úr skjálftavirkninni í grennd við Grímsey að sögn Steinunnar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, en skjálftahrinan þar hófst á þriðjudaginn.
Rétt eftir miðnætti í nótt mældist skjálfti af stærðinni 2,7 og segir Steinunn að virknin hafi verið nokkuð stöðug en greinilega hafi dregið úr henni.
„Skjálftarnir eru að koma í bylgjum eftir stærri skjálfta en þeim fer fækkandi og eru á bilinu 5-13 á klukkustund. Virknin getur alveg tekið sig upp aftur og það er alveg viðbúið að þessi skjálftahrina haldi eitthvað áfram,“ segir hún.
Stærsti skjálftinn í þessari hrinu mældist 5 að stærð og þá varð annar upp á 4,7 en skjálftarnir hafa víða fundist í byggð á Norðurlandi.