Eldur kviknaði út frá grilli í bakgarði við hús í Salahverfi í Kópavogi um klukkan 18 í kvöld. Niðurlögum eldsins hefur þegar verið náð.
Í samtali við mbl.is segir Loftur Þór Einarsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, að eldurinn hafi kviknað út frá grilli og borist út í skjólgirðingu á palli.
Einn slökkvibíll var sendur á vettvang og hefur eldurinn þegar verið slökktur.
Engum var meint af en einhver reykur barst inn í íbúðarhúsnæðið þar sem eldurinn kom upp. Reykræsting stendur nú yfir.
mbl.is barst myndskeið frá vegfaranda sem átti leið hjá eldsvoðanum.