Heinemann segir Sameyki fara með rangt mál

Heinemann segir að engin stjórnarskrárvarin réttindi eða önnur réttindi starfsmanna …
Heinemann segir að engin stjórnarskrárvarin réttindi eða önnur réttindi starfsmanna hafi verið eða verði brotin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þýska fyrirtækið Heinemann, sem tók nýlega við rekstri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli, segir að Sameyki fari með rangt mál um að fyrirtækið vilji skikka starfsfólk flughafnarinnar til að skipta um stéttarfélag og ganga í VR.

Í tilkynningu frá Heinemann kemur fram að öllum starfsmönnum sem störfuðu hjá Fríhöfninni ehf. og starfa nú í verslunum Ísland Duty Free á Keflavíkurflugvelli sé frjálst að eiga aðild að Sameyki meðan kjarasamningur Fríhafnarinnar ehf. og Sameykis er í gildi, til 1. febrúar 2028.

„Þá er það einnig rangt að Heinemann hafi leitast við að komast undan kjarasamningi Sameykis eða hafi reynt að semja um að kjarasamningur VR ætti að gilda um störf starfsmanna þess, enda er það ekki á færi atvinnurekanda að velja hvaða kjarasamningar gilda um starfsmenn þeirra og þar af leiðandi til hvaða stéttarfélags atvinnurekandi skilar iðgjaldi starfsmanna,“ segir í tilkynningu Heinemann.

Segir þar einnig að engin stjórnarskrárvarin réttindi eða önnur réttindi starfsmanna hafi verið eða verði brotin.

Aðeins kjarasamningur VR og SA geti gilt

Heinemann segir að aðeins kjarasamningur VR og SA geti gilt um störf starfsmanna í fríhöfninni nýju þegar kjarasamningur sem Sameyki átti aðild að fellur úr gildi. Það sé mat sérfræðinga sem fyrirtækið hefur ráðfært sig við.

Þetta sé vegna þess að starfsmenn Heinemann á Íslandi sinni verslunar-, þjónustu- og skrifstofustörfum hjá einkareknu fyrirtæki en Sameyki sé stéttarfélag í almannaþjónustu.

Félagsmenn Sameykis séu „einstaklingar í þjónustu ríkisins og sveitarfélaga og einstaklingar sem starfa hjá stofnunum og opinberum fyrirtækjum.“

„Heinemann mun eftir sem áður leitast við að eiga áfram uppbyggilegt samtal við Sameyki og aðra aðila vinnumarkaðarins með hagsmuni starfsmanna félagsins að leiðarljósi.“

Í tilkynningu Sameykis á miðvikudag kom fram að félagið hefði samið um kjör starfsmanna fríhafnarinnar frá árinu 1958.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert