Hópmálsókn verði ekki hlustað

Um 400 Grafarvogsbúar sóttu fundinn en meðal gesta voru borgarfullrúar …
Um 400 Grafarvogsbúar sóttu fundinn en meðal gesta voru borgarfullrúar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Karítas

Íbúar í Grafarvogi hyggjast skoða möguleikann á hópmálsókn eða íbúakosningu hlusti borgaryfirvöld ekki á mótmæli þeirra gegn þéttingaráformum í hverfinu.

Í Skipulagsgátt Reykjavíkur má nú finna breytingartillögu við deiliskipulag borgarinnar til ársins 2040 þar sem lagt er til að uppbygging íbúðarhúsnæðis verði á „vannýttum svæðum“ innan gróinna hverfa.

Íbúum Grafarvogs líst ekki á þessi áform en þegar athugasemdafrestur um tillöguna rann út í skipulagsgáttinni á miðnætti í gær höfðu um 1.300 skilað inn athugasemd. Langflestar þeirra voru frá ósáttum íbúum en í samtali við Morgunblaðið hafa einhverjir þeirra lýst áformunum sem „eyðileggingarstarfsemi“ en aðrir segja að hin vannýttu svæði séu lungu íbúa hverfisins.

Um 400 Grafarvogsbúar sóttu samstöðufund gegn áformum borgaryfirvalda í gær en í erindi Sigrúnar Ástu Einarsdóttur, eins skipuleggjenda fundarins og Grafarvogsbúa, kom fram að íbúar myndu ekki gefast upp í baráttu sinni gegn þéttingunni. Ef ekki yrði hlustað á kröfur þeirra nú yrði möguleikinn á að knýja fram íbúakosningu eða hefja hópmálsókn gegn borginni kannaður.

„Við erum í raun bara að standa vörð um þau gildi sem eru hér í hverfinu og þessi grænu svæði sem fólk hefur talað mikið um sem skipta okkur íbúana, og ekki síst börnin okkar, gífurlega miklu máli,“ segir Sigrún Ásta í samtali við Morgunblaðið.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert