Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að hámarkstími verði setur á það hversu lengi fólk megi sæta rannsókn yfirvalda.
Þetta upplýsti Hildur um í síðasta þætti Spursmála en orðaskiptin um það má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan.
Bendir hún á að út frá reynslunni af eftirleik bankahrunsins 2008 megi sjá að einstaklingar hafi sætt rannsóknum og haft stöðu grunaðra í umfangsmiklum sakamálum svo árum skipti og jafnvel lengur en áratug. Í einhverjum tilvikum var sú staða uppi, jafnvel þótt ekkert þokaðist í rannsókn málanna.
Bendir Hildur á að þetta sé um íþyngjandi fyrir fólk sem fyrir því verður og að setja verði rannsakendum, lögreglu og saksóknurum skorður í þessu efni.
Segir Hildur að hún hafi verið með þingsályktunartillögu þessa efnis í smíðum um alllangt skeið, og að hún hafi haft hana á teikniborðinu löngu áður en hið mikla hlerunar- og gagnalekamál kom upp á vettvangi sérstaks saksóknara.
Það mál hefur vakið mikið umtal og umræðu um rétt borgaranna gagnvart lögregluyfirvöldum. Í þessum málum hefur meðal annars komið fram að einstaklingar, sem aldrei höfðu réttarstöðu sakborninga voru hleraðir og máttu sæta því að upptökur af einkasamtölum þeirra færu manna á millum og voru jafnvel spilaðar í yfirheyrslum yfir öðrum einstaklingum sem sannarlega höfðu stöðu sakborninga í stórum sakamálum.
Viðtalið við Hildi má sjá og heyra í heild sinni hér að neðan en ásamt henni í þættinum var Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins: