„Þetta eru að mínu mati jákvæðar fréttir,“ segir Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, í samtali við mbl.is.
Arnór var inntur eftir viðbrögðum í kjölfar þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist vilja láta af refsiaðgerðum gegn Sýrlandi nú fyrr í vikunni.
„Þetta eru dálítið mikil tíðindi sem koma nokkuð óvænt. Hann eignar Erdogan [Tyrklandsforseta] heiðurinn af því að hafa sannfært sig um að þetta væri skynsamleg ráðstöfun og það er ekki útilokað að það sé svo,“ segir Arnór.
Hann segir það að aflétta viðskiptaþvingunum á Sýrlandsstjórn nú geti hjálpað Sýrlendingum að þróast í lýðræðisátt – takast að halda landinu saman, þrátt fyrir mismunandi stríðandi öfl og hagsmuni.
„Þeir geta aftur fengið lán, geta átt viðskipti við erlenda banka og svo framvegis og framvegis.“
Arnór segir að hlutunum í Sýrlandi verði ekki snúið í rétta átt einn, tveir og tíu.
„Ég held að menn séu að tala um ár. Mörg ár. Það þarf að byrja nánast á byrjuninni,“ segir hann.
Telur hann öllu máli skipta fyrir Sýrlandsstjórn að viðhalda þeirri þróun, sem þegar er hafin, um að Sýrlandsstjórn sé stjórn allra fylkinga, hversu ólíkar sem þær séu og hversu ólíkir hagsmunirnir eru.
Segir Arnór árásir á drúsa-minnihlutann í Sýrlandi áhyggjuefni og vonast til að þeim linni. Það sem sé þó enn meira áhyggjuefni og geti sett virkilegt strik í reikninginn séu árásir Ísraela og ísraelska flughersins á hernaðarleg skotmörk í Sýrlandi sem og yfirtaka þeirra á svæðinu sem liggur á landamærum Ísraels og Sýrlands í Hebron-hæðunum.
„Það svæði var áður svæði undir stjórn Sameinuðu þjóðanna en Ísraelar hafa lagt það undir sig, tæpa 300 ferkílómetra.“
Arnór segir að það að Ísrael sé í átökum við sýrlensku stjórnina viti ekki á gott og það geti valdið upplausn og miklum vandræðum fyrir núverandi stjórnvöld í Sýrlandi. Það jákvæða í þeirri mynd séu þó fréttir sem borist hafa um að sýrlenska stjórnin vilji eiga samtal við Ísraela um þessi mál.
Varnarmálasérfræðingurinn bendir þá á að athyglisvert sé að stjórnvöld í Bandaríkjunum eru í beinu samtali við Hamas-hryðjuverkasamtökin en ekki í samtali ásamt Ísrael eða í gegnum Ísrael.
Hann segir þá að í samhengi hlutanna sé verulegur ávinningur af því ef hægt er að minnka einn átakaflötinn í Miðausturlöndum og þannig sé yfirlýsing Bandaríkjaforseta jákvæðar fréttir.