Úlfar Lúðvíksson, sem lét af embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, mun njóta óbreyttra launakjara til og með 15. maí 2026. Með óbreyttum launakjörum er átt við heildarlaun, þ.e. mánaðarlaun, einingar og önnur laun sem starfinu fylgja.
Þetta kemur m.a. fram í starfslokasamningi sem dómsmálaráðuneytið gerði við hann og dagsettur er 13. maí, daginn eftir fund Úlfars með dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðuneytið afhenti Morgunblaðinu samninginn í gær.
Í samningnum segir að lausnarbréf verði gefið út þann 13. maí sem veiti honum lausn frá embættinu frá 14. maí að telja.
Auk óbreyttra launakjara kveður samningurinn á um að þann 1. júní 2026 verði gert upp ótekið orlof. Á gildistíma samningsins verða greidd framlög í lífeyrissjóð, viðbótarframlag í séreignalífeyrissjóð, desemberuppbót ásamt öðrum þeim greiðslum sem starfskjörum hans fylgja. Komi til hækkunar launa lögreglustjórans á Suðurnesjum á tímabilinu, mun Úlfar njóta þeirra.