Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur samþykkt að veita Orku náttúrunnar (ON), dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, leyfi til að setja sólarsellur ofan á þak og einnig á hluta af útveggjum húss við Bæjarháls 1.
Þar með fetar Orkuveitan inn á nýjar brautir. Áður hefur fyrirtækið virkjað vatnsaflið og jarðvarmann.
„Þetta er virkilega spennandi nýsköpunarverkefni sem hefur verið unnið að að undanförnu hjá Orku náttúrunnar og er kallað Birta á Bæjarhálsi,“ segir Lilja Björk Hauksdóttir, samskiptastýra Orku náttúrunnar.
Verkefnið snýst um að breyta kyndistöðinni við Bæjarháls í Reykjavík í hraðhleðslustöð fyrir rafbíla með uppsetningu á um 100 kW sólarsellum og 450 kWh rafhlöðum. Nú þegar eru á staðnum þrjár 240 kW hraðhleðslustöðvar, samtals 720 kW.
Verkefninu er ætlað að vera sýningar- og þróunarvettvangur fyrir ON til að bæta sjálfbærni, hámarka nýtingu endurnýjanlegrar orku, draga úr álagi á rafdreifikerfið og styðja við næstu skref í þróun framtíðar hraðhleðslustöðva, segir Lilja Björk.
Guðjón Hugberg tæknistjóri ON er umsjónarmaður verkefnisins. Hann segir að hér sé verið að gera tilraun með það hvað sólarsellur geta gefið mikið rafmagn. Þetta sé kjörinn staður því kyndistöðin sé í næsta nágrenni við höfuðstöðvar ON. Jafnframt verður komið fyrir batteríi sem rafmagnið fer inn á.
Guðjón segir að stefnt sé að því að hefja framkvæmdir í þessum mánuði og búnaðurinn verði tilbúinn í sumar. ON hefur rekið litla batterísstöð á Hvolsvelli og er reynslan af henni góð að sögn Guðjóns.
Þetta er ekki fyrsta sólarselluverkefni fyrirtækisins, segir Lilja Björk. Rannsóknir og nýsköpun hjá Orkuveitunni í samstarfi við ON hafa verið að kanna möguleika á nýtingu sólarorku í nokkur ár. Þetta verkefni er það fyrsta sem raungerist hjá ON, þ.e. þar sem birtuorkan er nýtt, og er það hugsað til að styrkja samspil hleðslustöðva og sólarorku.
Rafmagnsveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1921 með rekstri Elliðaárstöðvarinnar. Þar var framleitt rafmagn með vatnsafli. Jarðvarmavirkjunin á Nesjavöllum var gangsett í september 1990 þar sem varmaorka var og er framleidd. Raforkuvinnsla hófst á Nesjavöllum árið 1998. Orkuveitan var stofnuð 1. janúar 1999.
Kyndistöðin var tekin í notkun árið 1967 og gegndi hún hlutverki topp- og varastöðvar fyrir hitaveituna. Hún var byggð á sínum tíma til að koma í veg fyrir skort á heitu vatni. Bæði vegna bilana en fyrst og fremst til að mæta aukinni þörf á kaldasta tíma ársins.
Stjórn Orkuveitunnar samþykkti árið 2011 að rekstri kyndistöðvar á Bæjarhálsi í Árbæjarhverfi yrði hætt og starfsleyfi stöðvarinnar skilað. Nú er í húsinu ein af mörgum dælustöðvum hitaveitunnar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.