Sólþyrstir Íslendingar flykkjast nú austur á land en spáð er blíðviðri á Austurlandi alla helgina og inn í næstu viku. Töluverð aukning hefur verið í bókun tjaldstæða á Egilstöðum undanfarna daga og á Heiður Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins á Egilstöðum, von á að enn fleiri bætist í hópinn um helgina.
Spáð er allt að 25 stiga hita á Egilstöðum um helgina en nýtt hitamet féll í gær þegar 25,8 stiga hiti mældist á Egilsstaðaflugvelli. Það er mesti hiti sem hefur mælst í maímánuði frá upphafi mælinga en árið 1992 mældist 25,6 stiga hiti á Vopnafirði.
Þegar blaðamaður náði tali af Heiði var hún önnum kafin við að undirbúa komu tjaldgesta helgarinnar á milli þess sem hún naut sólarinnar og blíðviðrisins fyrir austan. Aðspurð segir hún að það hafi verið jöfn aukning í bókun gesta á tjaldsvæðinu alla vikuna en býst hún við því að fjöldinn nái nýjum hæðum um helgina.
Ekki er þó hætta á því að tjaldsvæðið verði uppbókað:
„Við erum með svo stórt svæði. Við erum bæði með bókanlegt svæði og svo svæði sem við opnum inn á þegar allt er orðið fullt. Þannig það er allavega nóg pláss fyrir alla sem langar að koma austur og vera á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum,“ segir Heiður.
Hún segir að það séu bæði erlendir ferðamenn og Íslendingar sem sækist á tjaldsvæðið um þessar mundir. Það séu þó Íslendingarnir sem séu að elta sólina.
„Maður sér ekki fyrir endann á þessu. Við vonum bara að þetta sé komið til að vera sem allra lengst,“ segir Heiður en spáð er áframhaldandi sólskini fyrir austan fram í næstu viku.
Ertu bjartsýn á að þetta sé einhver fyrirboði fyrir sumarið?
„Ég ætla að trúa því, ekki spurning,“ segir Heiður.