Veðurspáin fyrir helgina er afar góð og útlit er fyrir að landsmenn geti notið veðurblíðu um allt land alveg fram á þriðjudag.
Hitamet í maímánaðar féll í gær en hitinn mældist 26,6 stig á Egilsstaðaflugvelli. Fyrra metið var 25,6 stig, sem mældist á Vopnafirði í maí 1992.
Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að sér kæmi á óvart ef hitametið félli í dag þar sem sunnan áttin sé ekki eins sterk og hún var í gær. Hún segir að hafgolan gæti sett strik í reikninginn en hún útilokar ekki að metið falli um helgina.
„Það verður áfram mjög hlýtt um helgina en hvort metið falli er erfitt að segja til um. Veðurútlitið fyrir helgina um nær allt land er frábært. Það er helst við suður- og austurströndina sem gæti orðið þokuloft og þá verður svalara á þeim slóðum,“ segir Katrín Agla við mbl.is.
Hún segir að um helgina verði hæg sunnan átt, bjartviðri og afar hlýtt í öllum landshlutum. Á sunnudaginn er til að mynda spáð 21 stigs hita og léttskýjuðu veðri á höfuðborgarsvæðinu.
Katrín segir að útlit sé fyrir að það verði breytingar á veðrinu á miðvikudaginn en þá gera spár ráð fyrir vaxandi suðaustanátt með dálítilli vætu á vestanverðu landinu og í kjölfarið kólni í veðri sunnan heiða en áfram verður hlýtt á norðausturlandi þar sem hitinn verður um eða yfir 20 stig.