„Ég er búinn að reyna að láta orðið berast og í dag birti ég myndskeiðið á samfélagsmiðlum mínum.“
Þetta segir Hilmar Daníel Valgeirsson, sem er í afar sérstakri stöðu, sem eigandi húsnæðisins við Aðalgötu 6b á Siglufirði, en húsið eyðilagðist í ofsaveðri í september 2023.
Hilmar fékk hvorki bætur frá tryggingum né hamfarasjóði og Heilbrigðiseftirlitið á Norðurlandi vestra hefur sett þær kvaðir á Hilmar að hann fjarlægi rústir hússins á eigin kostnað.
Hann segir mál sitt í raun einsdæmi. „Það má segja að ég sé frumkvöðull, því miður í þessu tilfelli.“
Hilmar segir Íslendinga geta lært af máli sínu og mikilvægi þess að samfélagið standi saman þegar fólk lendi í því að ekkert grípi það í aðstæðum sem þessum.
Bæjarfélagið hefur hjálpað Hilmari eins og hægt hefur verið og er hann þakklátur fyrir það. Í samtali við mbl.is á dögunum sagðist hann eiga eitt úrræði eftir. Að ákalla bæjarbúa til aðstoðar við að rífa húsið.
Í myndskeiði, sem sjá má í spilaranum að ofan, biðlar Hilmar til samfélagsins.
„Ef þú getur gefið tíma, hæfni eða búnað væri það afar þakkarvert. Handafl skiptir máli og ég trúi því að hver og einn geti lagt sitt af mörkum.“
Hilmar segir félagasamtökin Veraldarvini og nokkra vini sína þegar hafa boðað komu sína og þá segir hann að nágrannar sínir í bruggsmiðjunni Segull 67 muni mæta um næstu helgi, með tilboð fyrir viðstadda og breyta leiðindamáli í skemmtilegan viðburð.
Vinnan hefst föstudaginn 23. maí og verður unnið daglega þar til verkinu er lokið. Hilmar telur að hreinsunarstarf geti tekið allt að tvær vikur.
„Ég trúi á hið góða fólk Fjallabyggðar og bið auðmjúkur um hjálp við að rífa rústirnar.“