Talsverður bruni varð inni í skóglendi í sumarhúsahverfi sunnan Apavatns í Grímsnesi í dag.
Slökkvistarfi er lokið og gekk vel að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu.
Brunavörnum Árnessýslu barst útkall um eldinn rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Slökkviliðsmenn frá þremur stöðvum fóru á vettvang, frá Laugarvatni, Reykholti og Selfossi.
Svæðið var erfitt yfirferðar og talsverð vinna fór í að leggja út mikið af slöngum. Eldurinn var umfangsmikill og komst nálægt sumarhúsum á svæðinu, en slökkviliði tókst að ráða niðurlögum eldsins áður en hann náði til mannvirkja.
Eldsupptök eru ókunn en slökkvilið brýnir fyrir fólki að fara varlega með eld, gróður er þurr og lítið þarf að bregða út af svo eldur verði laus.