Brunavarnir Árnessýslu berjast nú við gróðureld í sumarhúsahverfi sunnan Apavatns í Grímsnesi.
Verið er að leggja slöngur að svæðinu og viðbragðsaðilar að átta sig á stöðu mála. Slökkviliðsmenn frá þremur stöðvum eru á vettvangi, frá Laugarvatni, Reykholti og Selfossi.
Lárus Kristinn Guðmundsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Ánessýslu, segir að eldurinn logi á talsverðu svæði en að ekki sé talið að hús séu í hættu að sinni.
Slökkvilið brýnir fyrir fólki að fara varlega með eld, gróður sé þurr og lítið þurfi að bregða út af svo eldur verði laus.