Beiðni um áfrýjunarleyfi í hryðjuverkamálinu hefur verið samþykkt af Hæstarétti.
12. mars árið 2024 var Sindri Snær Birgisson sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til hryðjuverka og Ísidór Nathansson þar af leiðandi sýknaður fyrir hlutdeild í broti Sindra.
Tæplega ári síðar voru þeir aftur sýknaðir í Landsrétti og dómar þeirra fyrir stórfellt vopnalagabrot mildaðir.
Í dómi Landsréttar kom fram að því yrði „ekki slegið föstu“ að Sindri hefði með athöfnum þeim sem greint var frá í ákæru sýnt ótvírætt í verki ásetning til að fremja hryðjuverk.
Ríkissaksóknari áfrýjaði síðan dómi Landsréttar 3. apríl á þeim grundvelli að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur að efni.
Í ákvörðun Hæstaréttar segir einnig að jafnframt sé ríkissaksóknari byggður á því að áfrýjun lúti að atriðum sem mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um.
„Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að mikilvægt sé að fá umfjöllun um lagatúlkun Landsréttar og þá um hvaða kröfur eigi að gera varðandi ásetningsstig og sönnun þess þegar um undirbúningsathafnir er að ræða við tilraunabrot.“
Þá telur ríkissaksóknari refsingu tvímenninganna fyrir vopnalagabrotin hafa verið til muna of væga. Sindri var dæmdur í 18 mánaða fangelsi og Ísidór í 15 mánaða fangelsi.
„Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu, einkum um mat á undirbúningsathöfnum tilraunarbrots og 100. gr. a almennra hegningarlaga,“ segir í ákvörðun Hæstaréttar.
Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.