Hitinn hefur náð yfir 22 gráðum á Norðurlandi

Veðrið leikur við landann þessa dagana.
Veðrið leikur við landann þessa dagana. mbl.is/Sigurður Bogi

Sólarveður leikur við landsmenn um þessar mundir og gæti hiti náð yfir 20 stig í dag víðast hvar á landinu. Að mati veðurfræðings á Veðurstofu Íslands er veðurútlitið best á Norður- og Austurlandi í dag og á morgun en hitinn mælist nú 22 gráður í Ásbyrgi á Norðurlandi. 

„Það er víða mjög hlýtt og fínt og verður áfram á morgun. Það verður enn hlýrra á suður- og vesturlandi á morgun en líkur á þoku aukast líka á morgun,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Aðspurður segir Þorsteinn að ekki sé hægt að túlka sólarblíðu síðustu daga sem fyrirboða fyrir sumarið heldur sé það hæð við Færeyjar sem stjórni veðrinu um þessar mundir. Segir hann að hæðin hafi varað lengur en venjulegt er. 

„Við verðum bara að það komi góðir dagar í sumar líka. Þetta er aðeins að breytast um og eftir miðja næstu viku, þá er þetta ekki alveg eins skemmtilegt,“ segir Þorsteinn en spáð er rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu á fimmtudag og föstudag. Áfram er þó spáð blíðviðri á norður- og austurlandi fram í næstu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert