Lífið gjörbreyttist einn septemberdag árið 2007 hjá athafnamanninum Jóni Gunnari Benjamínssyni. Í bílslysi fyrir austan lamaðist hann fyrir neðan mitti og hefur þurft að nota hjólastól síðan, en lætur ekkert stoppa sig í að njóta lífsins.
Jón Gunnar, sem er ötull veiðimaður og veiðir bæði fisk og fugl, nýtir gjarnan fjórhjólið sitt úti í náttúrunni. En nú hefur bæst í flotann hans jafnvel enn betra farartæki til útivistar; svokallað Exoquad-hjól. Jón Gunnar segir hjólið létt og lipurt og henta því vel í ferðir í fjöruna, í berjamó, upp á fjöll, í gegnum skóga og á graslendi. Svo er líka hægt að skjótast á því niður í bæ og vera með í alls kyns samkomum sem erfiðara er að sækja í hjólastól. Jón Gunnar kynntist hjólinu nýlega og heillaðist svo mjög að hann hóf á því innflutning svo að aðrir gætu einnig fengið að njóta.
„Þetta er norsk uppfinning, en sá sem hannaði það á konu sem er í hjólastól. Honum fannst ómögulegt að hún gæti ekki verið með í alls kyns útivistarferðum,“ segir Jón Gunnar, sem dreif sig út til Noregs að skoða gripinn sem hann rak augun í dag einn á samfélagsmiðlum.
„Ég beið ekki boðanna og pantaði mér flug til Óslóar og hitti þennan verkfræðing,“ segir hann, en Jón Gunnar er nú með umboð fyrir Exoquad-hjól á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum.
„Ég prófaði þessi tæki úti í skógi og það kom mér svo á óvart hvað hjólið gæti, en hann sagði mér að keyra yfir trjádrumba og upp og niður brattar brekkur, sem ég fór létt með. Þetta hjól virkaði óstöðvandi,“ segir hann.
„Það var alveg magnað að geta bara verið úti „að labba“ með honum og spjallað á ferðinni, en hjólið hefur allt annað notagildi en fjórhjól. Hjólinu fylgir enginn hávaði og engin mengun og maður getur verið einn af hópnum,“ segir hann, en hjólið gengur á rafmagni og kemst fimmtíu kílómetra á hleðslunni. Hjólið kemst á sextán kílómetra hraða, en í fjórhjólastillingu sex kílómetra.
„Þetta er ekki nein spíttgræja. Þetta myndi líka henta eldra fólki eða fólki sem er að glíma við CP, MS eða þrekleysi eftir covid til að mynda. Fyrir mig er þetta rafmagnstorfæruhjólastóll.“
„Ég er ekkert hættur að nota fjórhjólið en held ég muni nota þetta hjól mun meira. Það er lægra og maður er í miklu meiri tengslum við náttúruna; maður nær betri jarðtengingu,“ segir Jón Gunnar, sem hyggst nota hjólið í veiðiferðir, í skotveiði, í fjöruferðir og berjamó.
„Ég ætla að fara á staði sem ég hef ekki komist á síðan ég lamaðist, eins og gamla veiðistaði. Þetta opnar margar dyr sem hafa verið lokaðar lengi,“ segir Jón Gunnar. Hann segist vera í smá baráttu við Sjúkratryggingar, en hann vill að tækið sé niðurgreitt sem tómstunda- eða íþróttatæki. Enn er það ekki komið í gegn þótt hægt sé að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan, en tækið kostar á bilinu 2,9 til 3,8 milljónir, eftir því hversu mikill aukabúnaður fylgir. Hægt er að lesa allt um hjólið á exoquad.is.
Hefurðu lent í því að verða einhvers staðar pikkfastur?
„Nei, en ég á örugglega eftir að koma mér í vandræði einhvers staðar ef ég þekki mig rétt. Ég er kannski hræddastur við mýrar og get forðast þær. Svo vil ég heldur ekki skemma landið, enda náttúruunnandi, en hjólið skilur ekki eftir sig för,“ segir Jón Gunnar, en hjólið er aðeins 90 kíló. Sethæðin er sú sama og í hjólastól og segir Jón Gunnar lítið mál að setjast á hjólið. Hann hefur nú þegar selt átta hjól og áhuginn er mikill.
„Þetta breytir algjörlega leiknum fyrir okkur sem þurfum á hjólastól að halda. Þetta er algjörlega nýtt og ekkert annað tæki býr yfir sömu eiginleikum og Exoquad. Það er svo gaman að fara prufurúnt með fólk því það brosir hringinn. Það sér fram á að geta notið náttúrunnar með fjölskyldu og vinum og þurfa ekki að sitja heima. Að fara út í náttúruna er besta geðlyf í heimi.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.