Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk fjölmargar tilkynningar vegna ökumanns sem hafði ekið á nokkrar kyrrstæðar bifreiðar og ekið síðan á brott. Eftir stutta leit fannst bifreiðin og ökumaður hennar sem reyndist ölvaður við akstur. Hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í þágu rannsóknar málsins.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.
Margt var um manninn í miðborginni fram á kvöld og fór skemmtanahald að mestu vel fram. Lögregla sinnti virku eftirliti með akstri undir áhrifum áfengis- og/eða fíkniefna.
Þá var lögregla send til aðstoðar dyravarða vegna manns sem hafði veist að þeim. Maðurinn var í tökum dyravarða þegar lögreglu bar að garði, hann var handtekinn og fluttur á lögreglustöð. Við öryggisleit fundust ætluð fíkniefni í fórum hans og var hann því kærður fyrir vörslu ávana- og fíkniefna ásamt broti á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg.
Annar einstaklingur var handtekinn í miðbænum fyrir óspektir og ofbeldistilburði.