Sólríkt veður síðustu daga hefur orðið til þess að aukin hætta er á gróðureldum, einkum á Vestur- og Norðurlandi. Biðlað er til fólks að fara varlega með eld, einkum einnota grill.
Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Þessi einnota grill hafa oft valdið eldi og fólk þarf að passa sig þegar gróðurinn er svona viðkvæmur eins og núna,“ segir Þorsteinn.
Nokkrir minni gróðureldar hafa komið upp síðustu daga að sögn Þorsteins og er áframhaldandi hætta á gróðureldum fram í næstu viku eða þar til það fer að þykkna upp og svo rigna á fimmtudag og föstudag víðast hvar á landinu.