Í Gaulverjabæjarkirkjugarði í Flóa stendur þetta tilkomumikla grenitré. Óhætt er að segja að það sé mótað af suðvestanáttinni, sem getur verið ansi öflug á þessum slóðum.
Valdimar Guðjónsson bóndi í Gaulverjabæ segir að tréð hafi verið gróðursett í kringum árið 1930 og er það því að verða aldargamalt. Það voru ábúendur á Syðra-Velli í Flóa sem gróðursettu það.
Tréð hefur lengi vakið athygli fyrir sérstaka lögun sína. Ferðamenn sem lagt hafa leið sína um Flóann hafa hrifist af því. Þrátt fyrir að vindurinn hafi oft verið sterkur hefur tréð aldrei verið nálægt því að falla því stofn þess er sver eins og myndin sýnir.
Það er stutt til sjávar frá kirkjugarðinum og því hefur selta sest á tréð, einkum að vetri til.
Gaulverjabær er kirkjustaður og höfuðból frá fornu fari. Gaulverjabær er landnámsjörð Lofts hins gamla frá Gaulum í Noregi, segir sagan.
Lítill vafi er sagður leika á því að Gaulverjabær sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim.
Í Gaulverjabæ fannst merkur silfursjóður árið 1930. Þetta er safn 360 silfurpeninga. Talið er líklegt að silfursjóðurinn hafi verið grafinn í jörðu stuttu eftir árið 1000. Aldurinn nær til tveggja alda þar á undan. Peningarnir komu mjög víða að. Flestir frá Bretlandseyjum, en einnig þýskir, danskir, norskir, sænskir og víðar frá. Elstu silfurpeningarnir voru frá Mið-Asíu.
Einnig fannst hér árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa.
Kirkja hefur verið í Gaulverjabæ frá upphafi kristni í landinu og er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá um 1200. Elsti máldagi kirkjunnar er frá 1220.
Kirkjan sem nú stendur í Gaulverjabæ var vígð 21. nóvember 1909 af sr. Gísla Skúlasyni. Hún er byggð úr timbri. Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði kirkjuna og yfirsmiður var Sigurður Magnússon frá Baugsstöðum í Flóa.
Kirkjan á marga góða gripi. Altaristaflan er frá 1775 og er eftir Ámunda Jónsson smið í Syðra-Langholti. Þá er kaleikur í eigu hennar frá 1654. Elsti hökull hennar er frá 1750.
Í Gaulverjarbæjarkirkjugarði eru leiði fólks úr sveitinni. Þar er einnig jarðsettur einn þekktasti litsmálari þjóðarinnar, Ásgrímur Jónsson. Hann var fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa 4. mars 1876, dáinn 5. apríl 1958.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.