Drapst af völdum hitaslags

Dýrfinna brýnir fyrir fólki að hafa nóg af vatni fyrir …
Dýrfinna brýnir fyrir fólki að hafa nóg af vatni fyrir dýrin séu þau úti og kæla hundana reglulega með því að bleyta loppur þeirra með vatni. Joe Raedle/Getty Images/AFP

Hundur fékk hitaslag og drapst á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Sjálfboðaliðasamtökin Dýrfinna vekja athygli á málinu á facebook-síðu sinni í dag.

Eygló Anna Ottesen, sjálfboðaliði hjá Dýrfinnu, segir í samtali við mbl.is ekki ljóst hvort að hundurinn hafi verið úti í sólinni eða skilinn eftir inni í bíl.

Geta drepist á 15 mínútum

Segir hún Íslendinga ekki vana að þurfa að hugsa um að skilja hunda sína ekki eftir í bílnum.

Þannig vilji samtökin vekja athygli fólks á því að skilja hunda sína alls ekki eftir inni í bíl í hitanum.

Í færslu Dýrfinnu segir að hundar geti drepist á einungis 15 mínútum af völdum hitaslags ef líkamshiti þeirra hækkar um nokkrar gráður.

Tveir fóru á dýraspítala

Að minnsta kosti tveir hundar lentu á dýraspítala í gær vegna hitaslags en þökk sé snöggum viðbrögðum eigenda þeirra eru þeir báðir á lífi.

Hundaeigendum er bent á að halda þeim í skugganum í dag og að fara ekki í langa göngutúra þar til sólin sest. Einnig er brýnt fyrir fólki að hafa nóg af vatni fyrir dýrin séu þau úti og kæla hundana reglulega með því að bleyta loppur þeirra með vatni.

Dýrfinna vekur athygli fólks á því að dýraspítalinn Animalía í Grafarholti sé opinn allan sólarhringinn.

Fréttin hefur verið uppfærð:

Í upphaflegri frétt var haft eftir sjálfboðaliða Dýrfinnu að hundurinn sem drapst hafi verið skilinn eftir inni í bíl. Það hefur verið leiðrétt þar sem það hefur ekki fengist staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert