Kolbeinn Arnbjörnsson hefur vakið athygli fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Reykjavík 112 sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans. Þættirnir eru byggðir á sögu Yrsu Sigurðardóttur, DNA.
Veturinn fyrir tökur á þáttunum var mikið að gera hjá Kolbeini. Hann var að vinna í verkefni í Borgarleikhúsinu en þá varð yngri systir hans bráðkvödd 35 ára gömul. Kolbeinn leyfði sér ekki að syrgja heldur hélt áfram að vinna í leikverkinu. Verkið var frumsýnt og þá hrundi allt.
„Ég fann fyrir óstjórnlegum kvíða í bland við þreytu og áhugaleysi og undir það síðasta skall á gríðarlegt myrkur. Ég var svo ólíkur sjálfum mér að kærastan mín hafði miklar áhyggjur af mér. Þar komst ég að því hversu lúmskt þetta getur verið. Ég sem tel mig vera svo ægilega næman og á auðvelt með að sjá vandamál annarra og vera fullur af samkennd gat ekki með nokkru móti sýnt sjálfum mér sömu mildi. Ég taldi mér stöðugt trú um að þetta væri bara aumingjaskapur og fór bara í kalt bað á morgnana og oftar í ræktina og það hélt mér á floti í örfáar vikur en að lokum sagði líkaminn stopp. Það var þá sem kærastan bókstaflega ýtti mér inn um dyrnar hjá lækni,“ segir Kolbeinn.
Fjölskyldusaga hans er afar flókin. „Foreldrar mínir voru ekki saman. Mamma var mjög ung, átján ára, þegar hún átti mig. Hún flutti suður og reyndi að ala mig upp ein. Ég var mjög veikt barn, með fjölþætta fæðingargalla. Ég hafði skorðast þannig í móðurkviði að ég fæddist með slitnar taugar eða vöðva í hálsinum sem greru saman þannig að höfuðið var fast við öxl, var með sýkingar í eyrum, slæman astma og ónýtar fínhreyfingar í höndum. Þegar ég hóf til að mynda skólagöngu var talið að ég myndi aldrei geta skrifað né teiknað eðlilega. Ég get ekki ímyndað mér að mamma hafi fengið mikinn svefn þetta fyrsta ár. Eflaust var síðan ekki mikið talað um fæðingarþunglyndi á þeim tíma.
Um eins árs aldur fór ég í varanlegt fóstur til eldri systur mömmu á Ólafsfirði og mannsins hennar. Stuttu seinna flutti móðir mín aftur til Ólafsfjarðar og kvæntist bróður uppeldisföður míns, þannig að mæður mínar eru systur giftar bræðrum. Þau bjuggu í næstu götu og ég vissi alltaf að hún væri blóðmóðir mín. Það var talsverður samgangur þarna á milli. Blóðfaðir minn flutti nokkrum árum seinna í bæinn með sína fjölskyldu. Ég á ellefu hálf- og stjúpsystkini í gegnum þessar þrjár fjölskyldur en ekkert alsystkini. Þrátt fyrir allt hef ég verið ótrúlega lánsamur að eiga í góðu sambandi við foreldra mína og öll systkini, sem er alls ekki sjálfgefið.“
Kolbeinn er í ítarlegu viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.