Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fékk skilaboð frá regluverði Rapyd á Íslandi þar sem hún var beðin um að draga til baka orð sín vegna viðtals sem birtist á RÚV þar sem hún sagði „óheppilegt“ að íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið að endurnýja samning sinn við ísraelska greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd.
Þetta segir Dagbjört í samtali við mbl.is en hún vakti athygli á þessu í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hún segir að hún hafi fengið tölvupóst frá regluverðinum skömmu eftir að frétt RÚV birtist. Var hún beðin um að birta skilaboðin ekki opinberlega.
„Þá fékk ég tölvupóst frá regluverði Rapyd að ég þyrfti að draga orð mín til baka. Ég kann því ekki vel þegar einkafyrirtæki reynir að hafa svona áhrif á lýðræðislega umræðu og regluvörður á að vita betur en að senda svona fyrir hönd síns fyrirtækis, segi ég sem fyrrverandi regluvörður,“ segir Dagbjört.
Regluvörður Rapyd á Íslandi hafnar því alfarið að hann hafi með tölvupósti sínum verið að reyna að hafa áhrif á lýðræðislega umræðu. Vildi hann leiðrétta þann misskilning að Rapyd Europe sé ísraelskt fyrirtæki og benti á að fyrirtækið starfaði einungis á Íslandi en ekki í Ísrael.
„Markmið mitt var einfalt: að leiðrétta rangfærslur um starfsemi Rapyd, sem komu fram í viðtali við Dagbjörtu á RÚV. Þar var Rapyd ranglega tengt við stríðsrekstur Ísraels og jafnvel þjóðarmorð – sem eru alvarlegar ásakanir sem hafa ekkert með raunveruleika fyrirtækisins að gera. Rapyd starfar alfarið samkvæmt íslenskum lögum og reglum, rekur starfsemi sína eingöngu á Íslandi og veitir enga þjónustu í Ísrael.
Það var mín ábyrgð sem regluvörður að bregðast við slíkum ásökunum, sérstaklega þegar þær geta haft áhrif á starfsleyfi, starfsfólk og öryggi þess. Ég gerði það á yfirvegaðan og virðingarfullan hátt – og á engan hátt var verið að reyna að þagga niður í lýðræðislegri umræðu,“ segir regluvörðurinn og bætir við hann telji nauðsynlegt að umræðan fari fram á grundvelli réttra staðreynda.
„Það hlýtur að vera bæði réttlætanlegt og eðlilegt að fyrirtæki fái að leiðrétta rangar upplýsingar sem settar eru fram í opinberri umræðu – sérstaklega þegar þær geta valdið tjóni og misskilningi,“ segir hann.
Greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd hefur verið umdeilt víða um heim, ekki síst á Íslandi. Rapyd keypti íslenska fyrirtækið Valitor árið 2021 og breytti nafni fyrirtækisins í Rapyd Europe. Alþjóðlegur forstjóri fyrirtækisins hefur lýst yfir stuðningi við stríðsrekstur Ísraels.
Á síðasta ári rann út samningur íslenska ríkisins við Rapyd en Fjársýsla ríkisins gerði samning við fyrirtækið á ný í síðasta mánuði. Samningurinn er í gildi til ársins 2027.
Þessi ákvörðun hefur fallið í grýttan jarðveg hjá sumum og hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra m.a. sagt að sér hugnist ekki samningurinn og að hann sé ekki í samræmi við stefnu stjórnvalda.
Hefur þú fengið sambærileg skilaboð þegar þú hefur tjáð þig opinberlega um innlend eða erlend málefni?
„Nei ég hef ekki fengið sambærilegan þrýsting frá einkafyrirtæki í tengslum við mál líkt þessu. Þetta er einstakt,“ segir Dagbjört.
Hún segir að stjórnmálamenn verði að geta viðrað skoðanir sínar opinberlega án þess að þeim standi hætta á því að fá sambærileg skilaboð.
„Nú þurfum við að vera vakandi fyrir því að svona taktík fer að verða algengari á sviði stjórnmálanna og stjórnmálafólk þarf að standa svolítið keikt fyrir því að geta greint frá afstöðu sinni án þess að eiga í hættu að fá svona skilaboð.
Auðvitað hefur þetta alltaf fylgt því að vera stjórnmálamaður en við þurfum að taka því alvarlega núna vegna þess að helstu ógnir við lýðræðislega umræðu eru utanaðkomandi áhrif þeirra sem tengjast vopnuðum átökum,“ segir Dagbjört.
Uppfært kl 19:00
Fréttin og fyrirsögn fréttarinnar hafa verið uppfærð eftir að rætt var við regluvörð Rapyd á Íslandi.