Í gær var slétt ár í að Íslendingar gangi að nýju að kjörborðinu og kjósi til sveitarstjórna. Manna þarf forystu í 62 sveitarfélögum af öllum stærðum og gerðum. Hið fjölmennasta er vitanlega Reykjavíkurborg með tæplega 140 þúsund íbúa. Fámennastur er Tjörneshreppur þar sem ríflega 50 manns hafa búsetu og lögheimili.
Það er athyglisverð staðreynd í hinu fámenna landi sem Ísland er að það eru aðeins 8 sveitarfélög sem eru með fleiri en 10 þúsund íbúa. 27 þeirra eru með þúsund til tíu þúsund íbúa og jafnmörg með færri en þúsund.
Áskoranirnar eru á sama hátt mismunandi og þær eru ekki einvörðungu bundnar við mannfjölda. Landfræðileg lega, lýðfræðileg samsetning og tekjustofnar ráða einnig miklu um hvernig þessar stjórnsýslueiningar standa.
Líkt og í síðustu kosningum til sveitarstjórna munu miðlar Árvakurs gera kosningabaráttunni fram undan góð skil. Varpa ljósi á stærstu áskoranir sveitarfélaganna og þær áherslur sem ólíkir frambjóðendur vilja leggja til komandi næstu fjögurra ára.
Til þess að spá í spilin um baráttuna fram undan mættu blaðamennirnir Andrés Magnússon og Hermann Nökkvi Gunnarsson á vettvang Spursmála. Og umræðan fór um víðan völl, enda landið allt undir.
Ljóst er að margra augu verða á Reykjavík í kosningunum nú. Þar hefur verið stormasamt. Þrír stjórnmálamenn úr tveimur flokkum vermt borgarstjórastólinn í tveimur mismunandi meirihlutum. Flest bendir til þess að Einar Þorsteinsson muni róa lífróður fyrir hönd Framsóknarflokksins og nefnir Andrés að á góðum degi muni flokkurinn ná inn tveimur mönnum. Einar tryggði flokknum frækinn sigur í síðustu kosningum, 19% atkvæða og fjóra borgarfulltrúa.
Andrés telur að Hildur Björnsdóttir hafi fest sig í sessi sem oddviti sjálfstæðismanna með sköruglegri framgöngu síðustu mánuði. Hermann Nökkvi vill ekki taka svo djúpt í árinni en segir að hún hafi vissulega styrkt stöðu sína.
Heiða Björg Hilmisdóttir er borgarstjóri nú en ekki er ljóst hversu mikillar velþóknunar hún nýtur hjá Kristrúnu Frostadóttur sem kjöldregið hefur forvera Heiðu í oddvitasætinu, Dag B. Eggertsson. Raunar svo mjög að ekki mun gleymast meðan land byggist.
Hermann Nökkvi bendir þó á að erfitt verði fyrir Samfylkinguna að skipta um oddvita í ljósi þeirrar staðreyndar að Heiða Björg situr nú í hinu háa embætti sem stjórnmálamennirnir á borgarsviðinu keppast allir um að hreppa.
Bæði Píratar og VG þurrkuðust út af þingi í alþingiskosningum í lok nóvember síðastliðins. Eru uppi miklar vangaveltur um möguleika þessara flokka til þess að halda lífi. Nefnir Andrés að VG sé líklegt til þess að gera það og að þar muni framboð í Reykjavík og víðar skipta sköpum. Hann er ekki eins viss um að stofnanir Pírata séu nægilega stöndugar til þess að standast þessa þrekraun.
Margt bendir til þess að flokkurinn sé í upplausn. Bendir Andrés á að Alexandra Briem oddviti þeirra sé stærra „vörumerki“ á borgarsviðinu en flokkurinn sjálfur. Vera kann að hún finni sér einfaldlega annan samastað fyrir næstu kosningar.
Baráttan verður hörð á fleiri vígstöðvum. Þannig verður forvitnilegt að fylgjast með þróun mála í Hafnarfirði þar sem allt stefnir í að Rósa Guðbjartsdóttir hverfi af sviðinu en hún er sem kunnugt er komin á Alþingi. Valdimar Víðisson, núverandi bæjarstjóri þarf á öllu sínu að halda til þess að styrkja stöðu sína og tryggja sér fleiri ár og lyklavöldin að ráðhúsinu í bænum.
Í Vestmannaeyjum mun Sjálfstæðisflokkurinn reyna að endurheimta völd sín eftir að hafa glutrað þeim niður í innanflokksátökum og klofningi fyrir tæpum átta árum.
Þá hefur vinstri-meirihluti ráðið lögum og lofum í Reykjanesbæ um langt árabil. Margt bendir til þess að flokkarnir stóru muni bjóða fram bæjarstjóraefni þar. Hefur þar meðal annars verið varpað fram þeirri hugmynd að Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins blandi sér í þann slag.
En sveitarfélögin eru fleiri líkt og áður var minnst á. Það er blaðamönnum Morgunblaðsins tilhlökkunarefni að fylgja kosningabaráttunni eftir og flytja áskrifendum og Íslendingum öllum áreiðanlegar, áhugaverðar og álitlegar fréttir af þeirri pólitísku veislu sem bíður handan við hornið.
Viðtalið við Andrés og Hermann Nökkva má sjá í heild sinni hér: