Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á dögunum mann til fjögurra mánaða fangelsisvistar fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot, en hann á að hafa haft í fórum sínum 1.260 stykki af lyfinu Alprazolam Krka, 114,5 stykki af MDMA og 4,28 g af kókaíni sem ætlað var að selja.
Auk efnanna var útdraganleg kylfa gerð upptæk við leit lögreglu í íbúð hans.
Í dómnum er krafist upptöku á efnunum og kylfunni. Þar að auki er farið fram á upptöku á stafrænni vigt og Samsung Galaxy s9 farsíma sem maðurinn mun hafa notað við sölu fíkniefnanna.
Við dómsuppkvaðninguna var meðal annars horft til þess að ákærði hefur ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi en þar að auki játaði hann brot sitt undanbragðalaust hjá lögreglu og fyrir dómi.
Í dómnum kemur fram að málið hafi dregist nokkuð á langinn á rannsóknarstigi vegna rannsóknar á fjármálum ákærða og lauk því í október 2023, en ákæra var ekki gefin út í málinu fyrr en 1. apríl 2025.
Sem fyrr segir hlaut maðurinn fjögurra mánaða fangelsisvist en litið var til þess að ákærði ætti ekki að baki sakaferil. Fullnustu refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms.
Málskostnaður í málinu var 669.600 krónur og var ákærða gert að greiða allan sakarkostnað.