Fíkniefni flæða um fangelsin

Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, segir mikla fíkniefnaneyslu í fangelsum á Íslandi. Fíkniefni eigi greiða leið inn í fangelsin og hægara sagt en gert að stöðva innflæðið. Hann segir fangelsin vanbúin til að taka á vandanum og að erlendis sé víða betra að sinna eftirliti með slíku.

Birgir ræddi við Dagmál mbl.is um fangelsismál á Íslandi en hann hefur verið rúma sjö mánuði í starfi sem settur fangelsismálastjóri.

Þjappaðri og erfiðari að finna

„Þetta hefur breyst. Það eru öðruvísi fíkniefni en áður. Þau eru þjappaðri og það er erfiðara að finna þau. Sérstaklega þar sem við erum ekki með fullmótuð öryggisfangelsi. Leiðir eru því nokkuð greiðar innan fangelsanna,“ segir Birgir.

Hann segir að erlendis sé víða erfiðara að koma fíkniefnum inn í fangelsin þar sem líkja megi aðkomu þar við að koma inn í flugstöð með tilheyrandi leit og hátæknibúnaði til leitar.

Gestir koma með fíkniefni með sér

„Þessum búum við ekki við þó að sjálfsögðu allir séu að vilja gerðir, á varðbergi og á tánum, en þetta er erfitt,“ segir Birgir.

Hann segir að gestir og gangandi komi fíkniefnunum inn en einnig eru veitt dagleyfi til fanga sem gjarnan eru nýtt til þess að koma með efnin til baka.

„Svo erum við ekki með múra, heldur girðingar og það er alltaf hægt að fara þá leið líka, þó að það sé ekki endilega líkleg leið,“ segir Birgir.

Fíkniefni eiga greiða leið inn í fangelsin.
Fíkniefni eiga greiða leið inn í fangelsin. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert