Ný brú yfir Sæbraut: „Gert í bongó blíðu"

Göngubrúin verður flutt frá athafnasvæði Ístaks í kvöld.
Göngubrúin verður flutt frá athafnasvæði Ístaks í kvöld. mbl.is/Eyþór

Ný 28 metra löng göngu- og hjólabrú verður flutt í heilu lagi í lögreglufylgd frá Mosfellsbæ til Sæbrautar í Reykjavík í kvöld. Brúin verður flutt í vagni frá athafnasvæði verktakans Ístaks í Tungumelum og hefst ferðalagið um áttaleytið.

Brúnni verður í framhaldinu komið fyrir á stigahúsum sem hafa verið reist við Dugguvog og Snekkjuvog.

Framkvæmdir hefjast um tíuleytið þegar krana sem mun hífa brúna upp verður komið fyrir við Sæbraut. Áætlað er að um tvo klukkutíma taki að koma honum fyrir og búist er við því að brúin verði kominn á sinn stað klukkan sex í fyrramálið, áður en morgunumferðin hefst.

Brúnni verður komið fyrir á stigahúsum.
Brúnni verður komið fyrir á stigahúsum. Ljósmynd/Vegagerðin

Umfangsmiklar lokanir

Umfangsmiklar vegalokanir verða á meðan á þessu stóra verkefni stendur frá klukkan 22 í kvöld. Meðal annars verður Sæbraut lokuð á þessum kafla, að sögn Sigríðar Ingu Sigurðardóttur hjá samskiptadeild Vegagerðarinnar. Stofnunin hefur yfirumsjón með verkinu.

„Þetta er gert í bongó blíðu. Við gætum ekki verið heppnari með veður,“ segir Sigríður Inga, en mikilvægt er að vinna verkefnið í logni.

Vilja tryggja örugga leið

Nýja göngu- og hjólabrúin, sem var smíðuð af alþjóðlega fyrirtækinu Acrow, verður um miðja vegu milli gatnamóta Sæbrautar við Súðavog annars vegar og Kleppsmýrarvegar hins vegar. Með henni verður til ný gönguleið milli Dugguvogs við Tranavog og Snekkjuvogs. Vonir standa til að brúin verði tekin í notkun í byrjun júní.

„Þetta er fyrst og fremst gert til að tryggja örugga gönguleið, ekki síst fyrir skólabörn úr nýju Vogabyggðinni yfir í Vogaskóla. Þetta er hluti af öryggisaðgerðum í tengslum við nýja samgöngusáttmálann,“ bætir Sigríður Inga við.

Umferð um Sæbraut.
Umferð um Sæbraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lyftur og hæðaslár 

Þegar brúin verður komin á sinn stað heldur vinna við stigahúsin áfram. Gengið verður frá tengingum milli brúar og stigahúsa, sett upp lýsing og myndavélakerfi, gengið frá jarðvegi við stigahúsin og göngu- og hjólastígar malbikaðir. Lyftur verða síðan settar upp við báða brúarenda. Þær eru á leiðinni til landsins og verða settar upp um næstu mánaðamót.

Hæðaslár verða jafnframt settar upp fyrir framan brúna, beggja vegna, til að reyna að koma í veg fyrir að vörubílar og flutningabílar rekist undir hana.

Í tilkynningu beinir Vegagerðin þeim tilmælum til verktaka og flutningsfyrirtækja að kynna hæðatakmarkanir við brúna fyrir sínu starfsfólki. „Ástæða er til þess að hvetja ökumenn stærri bíla til að setja niður palla á vörubílum, pakka saman bílkrönum og svo framvegis, svo ekki komi til óhappa eða slysa vegna hæðatakmarkananna,“ segir í tilkynningunni.

Þegar framkvæmdir vegna Sæbrautarstokks hefjast, samkvæmt samgöngusáttmála, verður síðan hægt að taka niður brúna og færa hana yfir á annan stað, að sögn Sigríðar Ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert