Skorar á Netanjahú að opna aftur á mannúðaraðstoð

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Karítas

Utanríkisráðherrar 22 vestrænna ríkja hafa skrifað undir skriflega áskorun til ísraelskra stjórnvalda um að heimila tafarlaust aðgengi mannúðaraðstoðar inn á Gasa og gera stofnunum Sameinuðu þjóðanna og annarra hjálparsamtaka kleift að starfa á svæðinu, í samræmi við alþjóðamannúðarrétt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er meðal þeirra sem skrifað hafa undir áskorunina. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að Sameinuðu þjóðirnar og mannúðarsamtök hafi starfað af hugrekki við afar erfiðar aðstæður sem Ísrael hafi skapað þeim.

Þessar stofnanir starfi á grundvelli mannúðarreglna, sem snúi að sjálfstæði og óhlutdrægni og búi yfir nauðsynlegri getu og sérþekkingu til að geta komið mat og hjálpargögnum til þeirra sem þarfnast þeirra mest. 

Ítreka ákall um tafarlaust vopnahlé

Utanríkisráðherrarnir ítreka enn fremur að Hamas verði nú þegar að sleppa öllum gíslum í haldi hryðjuverkasamtakanna. Vopnahlé þurfi að taka gildi nú þegar og efla þurfi starf í áttina að því að koma á fót tveggja ríkja lausninni svokölluðu, í þágu friðar og öryggis fyrir bæði Ísraela og Palestínumenn og stöðugleika á svæðinu öllu.

Auk Þorgerðar Katrínar skrifa utanríkisráðherrar Ástralíu, Kanada, Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Írlands, Ítalíu, Japans, Lettlands, Litáens, Lúxemborgar, Hollands, Nýja-Sjálands, Noregs, Portúgals, Slóveníu, Spánar, Svíþjóðar og Bretlands undir yfirlýsinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert