Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir borginni þröngur stakkur sniðin er kemur að félagslegu húsnæði. Hún segir það þó almennt ekki tíðkast að fólki sé úthlutað húsnæði án sturtu eða eldhúsaðstöðu.
„Það er í algjörum undantekningartilvikum sem að slíkt er gert,“ segir Rannveig í samtali við mbl.is.
Íslenskur karlmaður, sem frelsissvipti erlendan ferðamann á heimili sínu á Hverfisgötu fyrr í mánuðinum, er búsettur í skrifstofuhúsnæði í eigu Reykjavíkurborgar þar sem ekki er eldhúsaðstaða né sturtuaðstaða.
Maðurinn, sem er 39 ára gamall, glímir við fjölþættan vanda og hefur verið metinn hættulegur sjálfum sér og öðrum. Þörf er á viðeigandi úrræði fyrir manninn.
Rannveig segir að þegar þörf sé á öryggisráðstöfunum eða sérþættri geðheilbrigðisþjónustu sé það ekki á færi velferðarþjónustu sveitarfélaganna að grípa til aðgerða án aðstoðar annarra kerfa.
„Við viljum ekki segja okkur frá svona þjónustu og verkefnum en fleiri verða að koma að,“ bætir Rannveig við.
Að sögn Rannveigar hafa mál er varða einstaklinga sem þarfnast öryggisráðstafana verið í ólestri en hún segir þó vera að rofa til í þessum efnum.
„Starfshópur á vegum sjö ráðuneyta skilaði af sér tillögum um daginn. Við vonumst því til þess að ákveðnar lausnir séu í sjónmáli,“ segir Rannveig.
„Við erum að tala um einhvers konar búsetuúrræði fyrir einstaklinga sem þurfa öryggisvistun,“ segir Rannveig svo að lokum, innt eftir því hvaða lausnir hún vonist eftir að séu í sjónmáli.