„Góð tíð og bjartar spár hafa ýtt undir mikla kaupgleði hjá landsmönnum,” segir Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar.
„Við erum bara ennþá í smá sjokki yfir þessu,“ segir Magnús í samtali við mbl.is. „Það hefur hreinlega orðið áhlaup á bæði Húsasmiðjuna og Blómaval undanfarna daga.“
Sala á útivöru hefur margfaldast í samanburði við sama tímabil í fyrra. Sumarblóm, pallaolía, timbur og grill seljast eins og heitar lummur víða um land og hefur stemningin í verslununum verið lífleg og jákvæð samkvæmt Magnúsi.
„Við höfum séð gríðarlega aukningu í sölu á pallaolíu og pallaefni, það byrjaði í raun strax í apríl,“ segir Magnús. „Pallaolían hefur verið sérstaklega vinsæl, algjör sprenging þar.“
Einnig sé mikil sala á sumarblómum, sem hafa gengið vel í ræktun á Íslandi í ár. Þrátt fyrir aukna aðsókn segir Magnús að fyrirtækið hafi undirbúið sig vel fyrir sumarið.
„Við sjáum aukningu í grillunum, alveg gríðarlega mikla, sérstaklega núna fyrir síðustu helgi.“
Magnús segir að starfsfólkið hafi fundið fyrir gleði viðskiptavina. „Það hefur verið ótrúlega skemmtileg stemning í búðunum. Allir eru svo glaðir og jákvæðir, þrátt fyrir að mikið sé að gera. Veðrið virðist hafa bein áhrif á skap fólks og á söluna.“
Að sögn Magnúsar er sala þessa dagana með því besta sem Húsasmiðjan hefur upplifað á þessum tíma árs, í nokkur ár.
„Ég held að við höfum ekki séð þetta í fyrra eða hittifyrra. Fólk ætlar að nýta sumarið og það er mjög gaman að sjá þessa gleði, bæði hjá viðskiptavinum og starfsmönnum.“