Fjórir sérfræðingar í barnalæknisfræði vara við alvarlegum afleiðingum þess fyrir veik börn ef boðuð breyting á lyfjalögum sem snýr að undanþágulyfjum og afgreiðslu þeirra í lyfjaskorti verður lögfest.
„Mikil hætta er á, að verði þetta lagafrumvarp að lögum óbreytt, muni það skerða mjög aðgengi barna að nauðsynlegum lyfjum,“ segir í umsögn læknanna til velferðarnefndar Alþingis um frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lyfjalögum og viðbrögð við lyfjaskorti, sem nú er til umfjöllunar í þingnefndinni.
Fleiri hafa gagnrýnt boðaðar breytingar sem varða undanþágulyf án markaðsleyfis sem sagðar eru geta leitt til skerts aðgengis að nauðsynlegum lyfjum og valdið auknum lyfjaskorti. Í umsögn læknanna segir að þessar breytingar „gætu valdið óásættanlegri töf á réttri og tímanlegri afgreiðslu lyfja til barna á Íslandi, lyfja sem oft eru lífsnauðsynleg.“
Læknarnir sem standa að umsögninni eru Valtýr Stefánsson Thors, yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, Ragnar Bjarnason prófessor í barnalæknisfræði, Viðar Örn Eðvarðsson prófessor í barnalæknisfræði og Helga Elídóttir, sérfræðingur í barnalæknisfræði og ofnæmis- og lungnalækningum barna á Barnaspítala Hringsins.
Benda þau á að lyfjamarkaður á Íslandi er lítill. „Í meistararitgerð sem varin var við Háskóla Íslands í lyfjafræði vorið 2022 var staða lyfjamála á Íslandi metin og í ljós kom að á Íslandi voru þá skráð um 3.000 vörunúmer lyfja. Á sama tíma voru, bæði í Noregi og Svíþjóð, skráð vörunúmer 14.000, meira en fjórfalt fleiri en hérlendis.
Aðgengi lyfja hér á landi, þá sérstaklega fyrir börn, er því mjög takmarkað í samanburði við nágrannalönd okkar. Mikill fjöldi lyfja sem notuð eru fyrir börn á Íslandi eru undanþágulyf vegna skorts á markaðssettum lyfjum og lyfjaformum sem henta fyrir börn, en það tengist eflaust því hversu smár markaðurinn er,“ segir m.a. í umsögn þeirra.
Telja þau ekki líklegt að erlend lyfjafyrirtæki muni vilja greiða háar upphæðir til markaðssetningar á lyfjum sem oft kosta lítið og fáir einstaklingar nota. Tryggja þurfi að Lyfjastofnun geti áfram heimilað lyfjafræðingum í apótekum að afgreiða lyf án markaðsleyfis strax í stað markaðssetts lyfs sem ekki er fáanlegt. Lýst er alvarlegum áhyggjum af því að breytingar í ákvæðum laganna sem snúa að aðgengi og ávísun undanþágulyfja muni skila sér í enn frekari skorti á lífsnauðsynlegum lyfjum fyrir börn.
„Ef þetta lagafrumvarp verður samþykkt óbreytt mun það hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir veik börn og fjölskyldur þeirra,“ segir í umsögn læknanna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.