Agnes Johansen, kvikmyndaframleiðandi og einn af framleiðendum hjá RVK Studios, lést á líknardeild Landspítalans í Reykjavík sunnudaginn 18. maí, 66 ára að aldri.
Agnes fæddist 27. september 1958 í Reykjavík og ólst þar upp. Hún var elst í hópi sex systkina. Foreldrar hennar voru Rolf Johansen stórkaupmaður, f. 1933, d. 2007, og Kristín Ásgeirsdóttir húsmóðir, f. 1940.
Agnes stundaði nám í Langholtsskóla, Kvennaskólanum og Verslunarskóla Íslands, hún lauk síðan kennararéttindum frá Kennaraháskólanum árið 1982. Dans átti stóran þátt í lífi hennar alla tíð en hún varð fyrsti Íslandsmeistari í samkvæmisdönsum árið 1981 ásamt Ásgeiri Ragnari Bragasyni.
Agnes starfaði við kennslu og barnatengt efni í sjónvarpi á níunda áratugnum, stjórnaði meðal annars Stundinni okkar á RÚV og sá um allt barnasjónvarpsefni Stöðvar 2 um árabil áður en hún sneri sér alfarið að kvikmyndagerð.
Hún hóf samstarf við Baltasar Kormák Baltasarsson leikstjóra árið 2001 hjá Sögn ehf. og varð síðar einn af lykilframleiðendum RVK Studios þegar það var stofnað árið 2012.
Agnes kom að gerð fjölda íslenskra og alþjóðlegra kvikmynda- og sjónvarpsverkefna og var þekkt fyrir fagmennsku, elju og hlýlegt viðmót.
Hennar síðasta kvikmyndaverkefni var Snerting. Hún starfaði við kvikmyndagerð allt til æviloka. Agnes lætur eftir sig tvær dætur og fjögur barnabörn.