Í ljós hefur komið að asbest er að finna í Gunnarsholti á Rangárvöllum þar sem til stendur að opna á ný meðferðarheimilið Lækjarbakka næsta haust.
Um er að ræða meðferðarheimili fyrir drengi með fjölþættan vanda sem þurfa á langtímameðferð að halda, en heimilið er á vegum Barna- og fjölskyldustofu.
Lækjarbakka var lokað í apríl í fyrra þegar upp kom mygla í húsnæðinu sem það var í áður.
Samkvæmt upplýsingum frá bæði Barna- og fjölskyldustofu og mennta- og barnamálaráðuneytinu eru framkvæmdir í Gunnarsholti á áætlum þrátt fyrir að asbest hafi komið í ljós.
Ef allt gengur upp verður hægt að byrja að nýta úrræðið í september eða október, að segir svari ráðuneytisins.
Fréttin hefur verið uppfærð með réttum upplýsingum, en ráðherra gaf mbl.is rangar upplýsingar fyrir mistök fyrr í dag. Sagði hann að asbest hefði fundist í Blönduhlíð í Mosfellsbæ þar sem til stendur að opna stuðningsheimili fyrir börn með fjölþættan vanda í sumar.
Aðstoðarmaður ráðherra hafði samband við mbl.is í kvöld og leiðrétti mistök ráðherra.