Átta bátar mættu „einn tveir og bingó“

Ísafjarðarbær.
Ísafjarðarbær. mbl.is

Stígur Berg Sophusson, eigandi Sjóferða, var á ferðinni skammt frá staðnum þar sem farþegabáturinn Gunna Valgeirs varð vélarvana utan við Ögur í Ísafjarðardjúpi á tólfta tímanum í dag. Báturinn Örn er með hann í togi.

47 farþegar eru um borð í Gunnu Valgeirs og hef­ur hóp­slysa­áætl­un verið virkjuð. Eng­ar til­kynn­ing­ar hafa borist um slys á fólki og ekki hefur verið til­kynnt um að leki hafi komið að bátnum.

Ánægður með viðbragðið

Stígur segir að lítið skyggni hafi verið á svæðinu vegna þoku en er ánægður að sjá viðbragðið í Djúpinu hjá farþegabátum, eldisfyrirtækjum og björgunarsveitum í nágrenninu.

„Það voru átta bátar komnir á vettvang, bara einn, tveir og bingó,“ segir Stígur Berg aðspurður.

Hann bendir á að hópslysaæfing hafi verið haldin á Ísafirði fyrir stuttu síðan og telur hann mikilvægt að eldisfyrirtæki og farþegabátar eigi framvegis aðild að slíkum æfingum, enda hafi þau verið fyrst á vettvang í dag.

„En það eru allir óhultir, það er það eina sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert