Fólkið sem var um borð í farþegabátnum Gunnu Valgeirs, sem varð vélarvana utan við Ögur í Ísafjarðardjúpi á tólfta tímanum í dag, hefur verið flutt með björgunarskipum til Súðavíkur.
Farþegar bátsins voru 44 talsins, auk þriggja sem voru í áhöfn. Verið er að draga hann til Ísafjarðar.
Engum varð meint af, að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Björgunarskipin Svanur, Gísli Jóns og Kobbi Láka fóru öll á svæðið þar sem báturinn varð vélarvana og veittu aðstoð sína.