Frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis, sem nú er til meðferðar hjá nefndinni, er fálega tekið af grásleppusjómönnum og segir Stefán Guðmundsson, grásleppusjómaður á Húsavík, að mikill meirihluti þeirra sem veiðarnar stundi hafi óskað eftir því að þeim verði stjórnað í aflamarkskerfi.
Hann segir frumvarpið, sem mælir fyrir um afnám aflamarks en að dagakerfi verði tekið upp þess í stað, vera hámark vitleysunnar.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að verði frumvarpið að lögum væru ríkisstjórnarflokkarnir, undir forystu Flokks fólksins, að eyðileggja þann árangur sem náðst hafi með kvótasetningu grásleppu á síðasta ári, auk þess sem grásleppusjómenn yrðu sviptir þeim atvinnuréttindum sem þeim voru tryggð með lögunum.
Þetta ætli meirihluti atvinnuveganefndar að gera í trássi við ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins og meðalhófsreglu sem sé grundvallarregla stjórnskipunarréttarins.
Jón segir jafnframt vinnubrögð meirihluta atvinnuveganefndar í málinu hvorki honum né Alþingi til sóma og segir hann þingmenn minnihlutans í nefndinni mótmæla málinu harðlega.
Stefán vandar þeim tveimur þingmönnum Flokks fólksins í atvinnuveganefnd, sem hann segir harðast ganga fram í málinu, ekki kveðjurnar, en það eru þau Sigurjón Þórðarson formaður atvinnuveganefndar og Lilja Rafney Magnúsdóttur. Hann segir þau hafa komið öllum sínum fyrirvörum inn í gildandi lög.
„Þrátt fyrir það ætla þau að snúa öllu á haus og færa okkur aftur í það kerfi sem enginn vill vera í. Það er sorglegt að hlusta á vitleysuna sem vellur upp úr þessu fólki í ræðustól Alþingis,“ segir Stefán.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag. Einnig má nálgast hana án endurgjalds í Mogganum, nýju appi Morgunblaðsins og mbl.is.