Kom á óvart hve farþegarnir voru rólegir

Einn farþeganna aðstoðaður við að komast frá borði.
Einn farþeganna aðstoðaður við að komast frá borði. Ljósmynd/Landsbjörg

Þjónustubáturinn Örn ÍS frá Háafelli á Ísafirði var fyrstur á staðinn eftir að farþegabáturinn Gunna Valgeirs varð vélarvana utan við Ögur í Ísafjarðardjúpi á tólfta tímanum í dag.

44 farþegar voru um borð í bátnum ásamt þriggja manna áhöfn og sakaði engan.

„Við vorum þrjár mílur í burtu í Skötufirðinum að vinna á kvíunum [sjókvíum] með kafara. Þegar við heyrðum af stöðunni rukum við af stað og vorum fyrstir á staðinn,“ segir skipstjórinn Veigar Árni Jónsson, aðspurður.

Farþegabáturinn Gunna Valgeirs varð vélarvana fyrr í dag.
Farþegabáturinn Gunna Valgeirs varð vélarvana fyrr í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Með taugina á milli til öryggis

Þrátt fyrir að skyggnið hafi aðeins verið um 100 metrar vegna þoku hafi gengið vonum framar að koma farþegabátnum til aðstoðar.

„Við vorum að húkka í hann þegar björgunarsveitin kom úr Súðavík. Það voru frábærar aðstæður, lélegt skyggni en enginn vindur,“ greinir hann frá.

Örn var með Gunnu Valgeirs í togi í um einn og hálfan tíma, þar af stóðu björgunaraðgerðir yfir í um 40 mínútur. Fyrst voru 15 farþegar teknir frá borði og síðan fleiri í kjölfarið.

„Við vorum með taugina á milli til að gulltryggja að hann ræki ekkert meira upp í fjöru," segir Veigar Árni um farþegabátinn. 

Ljósmynd/Landsbjörg

Hefði ekki mátt líða langur tími

Spurður hversu mikil hætta hafi verið á ferð segir hann að farþegabáturinn hafi verið um 100 til 150 metra frá fjörunni þegar að var komið. „Það hefði ekki mátt líða langur tími, en þeir frá björgunarsveitinni í Súðavík voru komnir á staðinn á svipuðum tíma,“ svarar skipstjórinn og telur að báturinn hefði getað endað í fjörunni hefðu björgunaraðgerðir hafist um 20 mínútum síðar.

„Það er ótrúlega flott hvað allir voru komnir á skömmum tíma. 15 mínútum eftir að við vorum komnir voru sex bátar á svæðinu, svo átta til níu innan við hálftíma eftir að við komum.“

Gunna Valgeirs í togi.
Gunna Valgeirs í togi. Ljósmynd/Veigar Árni Jónsson

Farþegarnir tilbúnir uppi á dekki 

Að sögn Veigars Árna voru allir farþegar farþegabátsins, sem höfðu komið til Ísafjarðar með skemmtiferðaskipi,  staddir uppi á dekki tilbúnir að fara frá borði í björgunarbáta þegar Örn kom á vettvang og virtust þeir mjög rólegir yfir stöðu mála. Það hafi komið honum á óvart. Margir hafi verið með myndavélar á lofti. 

„Þetta var eldra fólk mikið þannig að það gekk rólega að fá það yfir í björgunarbátana. Þetta gerðist hægt og rólega."  

Hann bætir við: „Áhöfnin hefur staðið sig vel við að halda þeim rólegum. Það var allt með rólegasta móti þegar við komum, þrátt fyrir að þau væru stutt frá landi.“

Þokan var mikil eins og sést á þessari mynd sem …
Þokan var mikil eins og sést á þessari mynd sem var tekin um borð í Erni ÍS er báturinn var í togi. Ljósmynd/Veigar Árni Jónsson

Öryggi að hafa fjóra kafara um borð

Spurður kveðst skipstjórinn áður hafa dregið báta en núna hafi hann í fyrsta skipti kastað taug á milli í neyð.

„Það gekk bara mjög vel. Ég vona að ég þurfi ekkert að gera þetta aftur en maður er alla vega í æfingu af það gerist,“ segir hann og nefnir einnig að það hafi veitt sér mikla öryggistilfinningu að hafa fjóra kafara um borð sem höfðu verið að störfum með honum í Skötufirði. 

Ljósmynd/Landsbjörg
Viðbragðsaðilar tilbúnir á bryggjunni.
Viðbragðsaðilar tilbúnir á bryggjunni. Ljósmynd/Landsbjörg
Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert