Mikið álag er á vegakerfum landsins eftir óvenju heita og sólríka daga að undanförnu og ástand klæðinga á mörgum vegum er orðið mjög slæmt. „Þetta er vandamál sem hefur komið upp áður, en kannski ekki í sama umfangi eins og er núna,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Vegagerðarinnar, um stöðuna.
„Það helgast bæði af því að búnir eru að vera alveg óvenju margir mjög heitir og sólríkir dagar, dag eftir dag, en líka af því að við erum með töluvert mikið af klæðingum sem eru orðnar illa farnar og þarfnast orðið endurnýjunar,“ segir hún og vísar til veðurfarsins undanfarið og slæmu ástandi á klæðingum.
„Í fyrra fengum við bikblæðingar, sérstaklega á Austurlandi, en ekkert á suðvesturhorninu, þá var einfaldlega ekki svona mikill hiti. Klæðingarnar voru líka ekki jafn illa farnar og núna. Það sem gerist núna er að mörg atriði raðast saman á versta veg, þá kemur upp þetta ástand,“ segir Berþóra um orsökina fyrir ástandinu.
Bergþóra segir að víða um land, sérstaklega á Vesturlandi, séu vegir illa farnir eftir veturinn. Spurð hvort veðurfarsbreytingar séu helsta orsökin, segir hún svo ekki endilega vera.
„Ástandið hefur verið langvarandi á Vesturlandi, bæði á Hringveginum í Borgarfirði og Bröttubrekku. Einnig á Snæfellsnesvegi,“ segir hún. „Í morgun vorum við að fá töluvert af tilkynningum frá Suðurlandi og í uppsveitum þar. Þetta kom líka upp um helgina á Austurlandi, Norðurlandi og við Ólafsfjarðarveg. Sem er kannski í takt við ástand vegakerfisins,“ segir Bergþóra.
Vegagerðin er með starfsfólk og verktaka á vakt í viðbragðsstöðu við tilkynningum sem berast. „Við erum að reyna að sanda fyrst og fremst. Höfum verið að sanda og vökva til að reyna að kæla yfirborðið á klæðningunni.“
Aðspurð hvort vandamálið tengist því að um sé að ræða klæðingar, en ekki malbik, segir hún svo vera. „Já, svo sannarlega. Þetta er sambland af því að við erum með klæðingar á stöðum þar sem umferðarálagið er það mikið, að það væri æskilegra að vera með malbik. En vegakerfið okkar er stórt og það er mjög dýrt að malbika það allt saman, það gerum við ekki á nokkrum árum. En vissulega myndum við vilja malbika fleiri kafla, ekki spurning.“
Ef upp kemur tjón á ökutækjum vegna bikblæðinga, hvetur Bergþóra fólk til að tilkynna það. „Það fer eftir aðstæðum, hvar og hvernig það er, þannig ég get ekki fullyrt um ábyrgð. En við bendum fólki á heimasíðu Vegagerðarinnar, þar eru greinargóðar upplýsingar um hvernig tjónatilkynningar eru meðhöndlaðar.“
Bergþóra segir það mikilvægast að ökumenn láti vita ef þeir verða varir við bikblæðingar og fari varlega. „Það er hægt að hringja í 1777 og tilkynna. Þar sem ökumenn koma að svona köflum er mikilvægt að hægja á og draga úr hraða. Þetta getur verið hættulegt. Við höfum sett upp merkingar og reynt að bregðast við, en það getur líka skapað hættu. Mikilvægast er að fara varlega, það er númer eitt, tvö og tíu.“