Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, gaf mbl.is rangar upplýsingar í dag fyrir mistök þegar hann var spurður út í stöðu á meðferðarúrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda.
Ráðherra sagði að fyrra bragði að asbest hefði fundist í Blönduhlíð í Mosfellsbæ, þar sem til stendur að opna stuðningsheimili fyrir börn og unglinga á næstu mánuðum, á vegum Barna- og fjölskyldustofu.
Þegar ráðherra var svo spurður aftur, til að ítreka að upplýsingarnar væru réttar, hvort asbest hefði verið vandamál í Blönduhlíð í Mosfellsbæ, játti hann því. Þær upplýsingar komu svo fram í frétt sem birtist á mbl.is fyrr í kvöld.
Hið rétta er að asbest fannst í Gunnarsholti á Rangárvöllum þar sem til stendur að opna aftur meðferðarheimilið Lækjarbakka í haust. Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, hafði samband við mbl.is í kvöld til að leiðrétta þessi mistök ráðherra.
Lækjarbakka var lokað í apríl í fyrra þegar í ljós kom mygla í húsnæðinu sem það var í áður. Um er að ræða meðferðarheimili fyrir drengi með fjölþættan vanda sem þurfa á langtímameðferð að halda, en ekkert slíkt meðferðarúrræði hefur verið í boði í rúmt ár.
Guðmundur Ingi sagði í samtali við mbl.is í dag að unnið væri að því að hreinsa asbest úr húsnæðinu og gera nauðsynlegar breytingar svo það stæðist allar öryggiskröfur. Asbest var gjarnan notað sem einangrun í húsum á árunum 1950 til 1980, en notkun þess hefur verið bönnuð og er það hættulegt heilsu manna.
„Það er verið að taka allt í gegn og þar er allt á áætlun. Það eru upp á brunavarnir og annað að gera sem við þurfum að fylgjast vel með, að það sé allt hundrað prósent,“ sagði Guðmundur Ingi í dag.
Samkvæmt svari Barna- og fjölskyldustofu við skriflegri fyrirspurn mbl.is í síðustu viku, er verkið í útboðsferli og samkvæmt verkáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki í september.