Reyndi að flýja frá hótelreikningi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöld …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöld og í nótt. Einn var vistaður í fangaklefa eftir að hafa reynt að flýja frá hótelreikningi upp á tæplega 700 þúsund krónur og er málið til rannsóknar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Alls er 81 mál bókað í kerfum lögreglu á tímabilinu.

Rafskútuslys rekið til ölvunar

Lögreglan og sjúkraflutningamenn þurftu að hafa afskipti af einstaklingi vegna rafskútuslyss en hann reyndist vera ölvaður og þurfti aðhlynningu sjúkraflutningamanna.

Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk útkalla vegna innbrots í fyrirtæki. Þar var búið að brjóta rúðu og fara inn í verslun. Ekki liggur fyrir hvað var búið að taka og er málið til rannsóknar.

Tilkynnt var um yfirstandandi innbrot í austurbænum. Lögreglan var fljót á staðinn og er talið að þjófurinn hafi ekki haft tíma til að grípa með sér nein verðmæti.

Lögreglan á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði og Garðabæ, var kölluð til vegna reiðhjólaslyss þar sem bifreið og reiðhjólamaður skullu saman. Tildrög slyssins eru ekki kunn og málið í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert