Róðurinn þyngist hjá kaffihúsum

Kaffitár hefur fundið fyrir auknum kaffikostnaði frá því um mitt …
Kaffitár hefur fundið fyrir auknum kaffikostnaði frá því um mitt síðasta ár. Ljósmynd/mbl.is

Í kjölfar aukins kostnaðar á kakó- og kaffibaunum og hækkandi launakostnaði hafa rekstraraðilar hinna ýmsu kaffihúsa fundið fyrir rekstrarörðugleikum. Kaffitár hefur þurft að loka kaffihúsum, og á fleiri stöðum hefur verið gripið til verðhækkana.

„Heimsmarkaðsverð á kaffi hefur hækkað gríðarlega og það er farið að reyna á þolmörk hjá viðskiptavinum og okkur, segir Marta Rut Pálsdóttir, framkvæmdastýra kaffihúsa Kaffitárs, í samtali við mbl.is. 

Kaffiverð í fjórum stærstu matvöruverslunum landsins hefur hækkað um 7,4% síðasta árið og dæmi eru um að einstakar tegundir kaffibauna hafi hækkað um 33%. Kaffihús vinna einnig mikið með súkkulaðiafurðir, og því hafa verðhækkanir á kakóbaunum um allt að 200% áhrif á reksturinn. Í ljósi hækkaðs hráefnisverðs kaffihúsanna og aukins launakostnaðar hefur rekstur ýmissa kaffihúsa þyngst töluvert. Eitt þeirra er Kaffitár, en fyrirtækið hefur þurft að loka fjórum kaffihúsum á rúmum tveimur árum. Tvö kaffihús fyrirtækisins starfa enn.

„Við höfum fundið fyrir þeirri gríðarlegu hækkun á heimsmarkaðsverði á kaffi sem hefur orðið síðustu mánuði, og það heldur áfram að hækka. Við höfum verið að skoða verðið, en við erum komin að þolmörkum hjá viðskiptavinum og okkur sjálfum,“ segir Marta Rut.

Marta Rut Pálsdóttir, framkvæmdastýra kaffihúsa Kaffitárs. Kaffi Vest
Marta Rut Pálsdóttir, framkvæmdastýra kaffihúsa Kaffitárs. Kaffi Vest Samsett mynd/Ljósmynd/Aðsend/Ljósmynd/Aðsend

Hún segir hækkanirnar hafa byrjað að hafa veruleg áhrif um miðbik síðasta árs. „Kaffi er aðalsöluvaran okkar, og við viljum halda gæðunum óbreyttum. Við erum alltaf að endurskoða, að vega og meta og ákváðum að loka nokkrum staðsetningum til að taka aðeins til í rekstrinum.“

Fleiri kaffihúsaeigendur hafa verið að glíma við aukinn rekstrarkostnað. Ásgeir Sandholt, eigandi Sandholt bakarís, segir að verðhækkanir á kaffi og súkkulaði hafi verið miklar og að skortur á kakó- og kaffibaunum spili þar stórt hlutverk.

Pétur H. Marteinsson, meðeigandi Kaffi Vest, segir staðinn ekki hafa fundið mikið fyrir verðhækkunum á kaffi, en að launahækkanir taki á. Til viðbótar við kaffi segir hann að staðurinn staðurinn bjóði upp á veitingar og aðra drykki og að það auðveldi reksturinn mikið, sérstaklega yfir sumartímann.

Viðmælendur segja að utan verðhækkana sem reynt hafi verið að halda í skefjum, verði rekstur kaffihúsanna óbreyttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert