Safna fyrir keppnisferð í folfi á Álandseyjum

Ungir og efnilegir frisbígolfarar
Ungir og efnilegir frisbígolfarar Ljósmynd/Aðsend

Frisbígolffélagið DGUnited og Frisbígolffélag Reykjavíkur standa nú fyrir sérstakri styrktarmótaröð á Vífilsstaðavelli til stuðnings fjórum ungum íslenskum frisbígolfurum sem stefna á keppnisferð til Álandseyja seinna í sumar.

Þeir Eyvindur, Steven, Ares og Kristófer Breki hafa allir hlotið keppnisrétt á alþjóðlegu frisbígolfmóti er nefnist RESELIGA.

Sæti á mótinu eru afar umsetin að sögn Magnúsar Freys Kristjánssonar, stjórnarmanns í Frisbígolffélagi Reykjavíkur, og það sé því mikill heiður fyrir Íslendinga að fá að senda fulltrúa þangað.

Ferðin og þátttaka á mótinu er þó kostnaðarsöm og því hafa félögin slegið til og ákveðið að efna til styrktarmóts fyrir drengina. Deildin samanstendur af átta vikulegum mótum sem haldin eru á mánudagskvöldum.

Að sögn Magnúsar stendur til að safna um einni og hálfri milljón króna. Nú þegar hefur safnast dágóð summa þrátt fyrir að enn séu sjö skipti eftir af mótaröðinni. Þátttaka í mótaröðinni er öllum opin en og renna öll þáttökugjöld beint til stuðnings drengjunum

Hundraðasti völlurinn vígður í fyrra

Aðsókn og áhugi á frisbígolfi hefur aukist mjög á undanförnum árum frá því að íþróttin hóf innreið sína hér á landi. Frá því að Frisbígolffélag Reykjavíkur var stofnað árið 2017, hafa um 500 manns gengið til liðs við félagið.

Fjölmargir spili nú frisbígolf á hverjum degi og þá einkum á sumrin. Mikil uppbygging hefur sömuleiðis verið á frisbígolfvöllum og annarri aðstöðu til að iðka íþróttina en þrátt fyrir að hundraðasti frisbígolfvöllurinn hafi verið vígður í fyrra skapist enn oft langar biðraðir á bestu völlunum.

Aðsókn úr öllu valdi

Magnús telur þessa þróun afar jákvæða og að bjartir tímar séu fram undan fyrir frisbígolfiðkun með þessu áframhaldi.

„Það hefur bara aldrei verið jafn mikið að gera í frisbígolfheiminum og einmitt núna. Við erum sífellt að bæta við okkur og eftirspurn eftir skipulögðum æfingum hefur aukist svo mikið að við erum eiginlega í vandræðum með að manna þær allar,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert