Situr enn í gæsluvarðhaldi

Konan hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 16. apríl.
Konan hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 16. apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kona sem grunuð um aðild að andláti föður síns á Arnarnesi í síðasta mánuði situr enn í gæsluvarðhaldi.

„Rannsóknin er í fullum gangi. Við erum að bíða eftir gögnum, taka skýrslur og vinna úr miklu magni af gögnum sem við höfum fengið,“ segir Eiríkur Valberg, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Konan, sem er sú eina sem hefur stöðu sakbornings í málinu, hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því 16. apríl síðastliðinn en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn er í gildi til 3. júní.

Eiríkur vill ekki gefa upp hvað fram hefur komið í skýrslutökum yfir konunni en fram kom í frétt á RÚV á dögunum að hún hafi neitað sök í málinu.

Maðurinn sem lést hét Hans Roland Löf. Hann var tannsmiður og fæddur árið 1945. Hann var búsettur í Súlunesi ásamt eiginkonu sinni og dóttur þeirra, Margréti Höllu Hansdóttur, sem situr í gæsluvarðhaldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert