Sprengjuæfing sérsveitarinnar fór fram í gamla Morgunblaðshúsinu við Kringlu í dag. Framundan eru framkvæmdir á húsinu og var aðstaðan því nýtt til sprengjuæfinga. mbl.is fékk að fylgjast með æfingunni.
Sprengjusérfræðingur sérsveitarinnar segir mikilvægt að æfa sig bæði inni og úti. Það þarf að huga að ólíkum hlutum þegar sprengt er innan- og utandyra. Til dæmis vegna þrengsla, myrkurs, brunakerfis, eld- og hrunhættu.
Slíkar sprengjuæfingar fara fram næstum mánaðarlega en það fer eftir því hvað þeir fá af húsnæði til æfingar.
Hann segir það ekki óvenjulegt að æfðar séu sprengingar innan íbúabyggðar. Það hefur verið gert víðsvegar um borgina.
Mestur tími fer í undirbúning æfingarinnar. Það er mikilvægt að tryggja öryggi allra.
Sérsveitin hefur aldrei þurft að nota þessa tækni við störf hér á landi.