„Ég heillaðist af því að vera á þessum fallega stað, vera úti og hitta fólk. Þess vegna er ég hér,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti Íslands, en hann hefur tekið við landvarðarstarfi á Þingvöllum.
Í dag er fyrsti dagurinn hans Guðna í nýju starfi. Þegar blaðamaður hitti á hann við Almannagjá var hann að klára að leiðsegja hópi grunnskólanema og kennara þeirra. Mikil ánægja var meðal hópsins sem þakkaði vel fyrir sig og vildu börnin mörg ekki kveðja forsetann fyrrverandi.
Aðspurður segir Guðni brosandi frá því að um 45 mínútur liðu þangað til fyrsti Íslendingurinn tók eftir honum og spurði hvað hann væri að gera. Flestir ferðamenn hafi ekki verið meðvitaðir um að fyrrverandi forseti landsins væri meðal þeirra, sem er skemmtilega íslenskt fyrirbæri sem Guðna þykir mikilvægt að halda í.
Hvernig kom það til að hefja störf á Þingvöllum?
„Ég var hér á Þingvöllum 17. júní 2024 á yndislegum degi – eins og þessum – og við Einar Á. E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, vorum að spjalla saman um hvað tæki við hjá mér.
Ég sagði „ætli ég þurfi ekki bara að fara að leita mér að vinnu“ og hann svaraði að bragði „viltu ekki bara koma hingað?“
Ég tek vaktir hér og þar, ég er auðvitað í minni prófessorstöðu við háskólann en ég get púslað þessu saman,“ svarar Guðni, sem flestum er kunnugt að starfar einnig sem sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Aðspurður segir Guðni verkefni starfsins fjölbreytt og mismunandi.
„Það er að svara spurningum í þjónustumiðstöðinni, fara með hóp fólks frá Hakinu, niður Almannagjá, út að Axarárfossi og inn í Flosagjá og vera til taks ef eitthvað kemur upp á, að geta þá veitt aðstoð,“ segir hann. Hann hafi byrjað á skyndihjálparnámskeiði sem hafi verið mjög þarft, „þannig að maður er bara hér í vinnunni“.
„Hérna voru krakkar í heimsókn úr Lindaskóla, frá Hjallastefnunni og fleiri skólum og leikskólum. Hér fáum við líka gesti sem koma til landsins með skemmtiferðaskipum og byrja þá gjarnan á því að koma hér og ljúka svo Gullna hringnum með Gullfoss og Geysi, eða taka öfugan hring, byrja þar og koma svo hingað.
Þannig að hérna er stöðugur straumur, sérstaklega á góðum degi eins og þessum.“
Þú virðist halda svolítið í þjóðarstoltið í þínum störfum, varst forseti Íslands og ert hér kominn til starfa í fallegri náttúru landsins.
„Já einmitt, og að segja fólki frá sögu þessa staðar og sögu Íslands. Flestir sem ég hitti eru að utan og vita ekkert hver ég er, sem er bara fallegt.
Það er virkilega gaman að vera hér með góðum hópi fólks, það er einvalalið sem að vinnur hérna. Mér finnst líka hafa tekist vel við uppbyggingu staðarins, hann heldur sinni tign en það eru einnig stikaðar leiðir og göngustígar þannig að fólk getur notið þess að koma hingað. Ég hlakka bara til að vera hérna í sumar.“