Ef ákveðið verður að leigja út lóðir þar sem Ferðafélag Íslands og Útivist eru nú með starfsemi í Þórsmörk og á Goðalandi til annarra aðila sem huga að arðbærari starfsemi má gera ráð fyrir að breyting verði á þessum stöðum og þeir verði ekki sama griðland og almenningur þekkir í dag.
Þetta segir formaður Útivistar, en bæði hann og formaður Ferðafélagsins vænta þess að geta áfram verið með starfsemi á svæðinu eins og þau hafa verið með í yfir hálfa öld.
Rangárþing eystra auglýsti í síðustu viku lóðir félaganna í Þórsmörk, á Goðalandi og í Efri Botnum í Emstrum til leigu. Tekið er fram í auglýsingunni að við ákvörðun á útleigu á lóðunum verði horft til þekkingar og reynslu af rekstri gisti- og ferðaþjónustu, svo sem fjallaskála og sambærilegra gistihúsa á miðhálendinu. Þá verði horft til greinargerðar um áform um það hvernig nýta eigi lóðina og hvernig sú nýting samræmist skilmálum deiliskipulags. Hins vegar er að lokum tekið fram að sveitarfélagið muni í ljósi samkeppnissjónarmiða leitast við að fá markaðsverð fyrir leigu á umræddum lóðum.
Hefur orðanotkunin markaðsverð í þessu samhengi vakið nokkra athygli, enda opnar það á að fjársterkir aðilar komi inn og yfirbjóði Ferðafélagið og Útivist um lóðir sem þau hafa haft til afnota í áratugi og byggt upp mikla starfsemi á og fjöldi landsmanna hefur lagt leið sína til á í gegnum tíðina.
Auglýsing sveitarfélagsins er sett fram á grunni laga um þjóðlendur og að bjóða skuli út allar lóðir þar. Hafa sveitarfélög skipulagsrétt á þjóðlendum innan sinna sveitarfélagsmarka, þó að forsætisráðuneytið þurfi að samþykkja alla nýtingu sem vara á til lengri tíma en eins árs.
„Núna er komið að Þórsmörk og Goðalandinu og eins og þetta horfir við okkur erum við hugsi yfir því að hafa verið með starfsemi á þessu svæði í 50 ár og byggt upp aðstöðu fyrir almenning og þurfa svo að búa við að þurfa að bjóða í lóðirnar og keppa mögulega við einhverja aðra um aðstöðuna. Þetta er víst veruleikinn,“ segir Guðfinnur Þór Pálsson, formaður Útivistar, í samtali við mbl.is.
Segir hann að félagið hafi vitað að auglýsingarinnar væri að vænta en ekki vitað hvernig hún yrði orðuð fyrr en hún birtist í síðustu viku.
„Okkar forsendur fyrir starfsemi Útivistar í Básum eru þær að þetta svæði er opið almenningi gegn vægu gjaldi og það er eitthvað sem þúsundir manna þekkja. Þetta er feikivinsæll tjaldstaður og við lítum á þetta sem tjaldsvæði fyrir almenning. Þarna eru í dag lágt stemmdar byggingar og ekki rekin hörð atvinnustarfsemi og þessar forsendur eru eitthvað sem við höfum alltaf talið að myndi hafa áhrif á tekjur staðarins. Þarna eru ekki uppbyggðir vegir og aðgengi takmarkað og starfsemin fyrst og fremst yfir sumarmánuðina. Þetta eru þær forsendur sem Útivist vill standa að varðandi rekstur á Básum á Goðalandi – með nákvæmlega þessum hætti.“
Guðfinnur segist ekki vita hvort aðrir sjái fyrir sér starfsemi á svæðinu sem gefi af sér meiri tekjur en núverandi starfsemi. Það myndi þó breyta svæðinu mikið. „Ef svo er þá verðum við að gera okkur grein fyrir því að Þórsmörk og Goðaland verður öðruvísi en það griðland sem við þekkjum fyrir almenningi og þá óspilltu náttúru sem við sækjum í.“
Segist hann telja að auglýsingin opni svolítið á að taka skuli tilboði frá hæstbjóðanda eða að reynt sé að fá fram hressilegt tilboð. Hann segist þó vona að horft verði til núverandi starfsemi og þess sem félögin hafi staðið fyrir. „Menn hljóta að horfa til þess hvernig starfsemi menn vilja hafa þarna.“
Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins er ekki aðeins horft til núverandi lóðar sem Útivist hefur á leigu, heldur stefnir sveitarfélagið einnig á að bjóða út fjóra litla reiti sem eru þó hluti af Goðalandssvæðinu. Er um að ræða reiti sem eru í norðurhlíð Bólfells, sem rís upp frá Básum, og má því í raun segja að það sé beint ofan í núverandi svæði Útivistar.
Spurður út í þennan möguleika og hvort að þar gæti risið önnur starfsemi segir Guðfinnur að Útivist hafi fullan vilja til að koma að þeim áformum ef bjóða eigi út byggingarrétt á þessum fjórum lóðum, en segir jafnframt að þar þyrfti að leggja eitthvað af birkiskóginum undir til að geta byggt upp, sem þeim hugnast ekki mikið.
Hins vegar sé líklega þörf á aukinni gistiþjónustu til lengri tíma, en að Útivist leggi áherslu á að það verði í svipuðu horfi og félagið hefur verið með hingað til á svæðinu.
Spurður út í mögulega harða atvinnustarfsemi og hvort hann eigi þar við aðra ferðaþjónustu, t.d. fjórhjólaferðir eða annað slíkt segir hann að það sé á meðal þess sem félagið hafi áhyggjur af. „Þetta er einfaldlega eitthvað sem við viljum ekki og ef það kæmi til umræðu erum við einfaldlega á móti því.“
„Okkar sýn á Bása er að þar verði lágt stemmdar byggingar og ekki hörð atvinnustarfsemi. [...] Ég hef ekki heyrt að sveitarfélaginu hugnist að hafa þetta öðru vísi – að það komi hér einhver lúxushótel eða slíkt,“ segir hann og tekur aftur fram að það sé eitthvað sem félaginu hugnist ekki heldur.
Ólöf Kristín Sívertsen er formaður Ferðafélags Íslands. Félagið á húseignir bæði í Langadal og Húsadal í Þórsmörk og rekur starfsemi í Langadal, en leigir út húsnæðið í Húsadal. Hún segir að félagið hafi í tugi ára verið á svæðinu og vonast til að vera það áfram um ókomna tíð. Þannig sé meðal annars áformað að endurbyggja Skagfjörðsskála og opna á 100 ára afmæli félagsins 2027. Til að sú framkvæmd geti farið fram þarf hins vegar að ljúka þessum lóðamálum.
„Við væntum ekki annars en að við munum eiga áfram í góðu samstarfi við sveitarfélagið,“ segir hún. „Þetta er þjóðlenda sem okkur þykir vænt um og þarf að umgangast af virðingu, sem við teljum okkur hafa gert alla tíð.“
Segir hún að orðalagið markaðsvirði hafi komið henni örlítið á óvart, en miðað við samtöl og samvinnu með sveitarfélaginu undanfarin ár segist hún ekki eiga von á öðru en að félagið geti áfram verið með starfsemi á þessu svæði. Til viðbótar við Þórsmörk er félagið í dag með rekstur í Emstrum, en Emstrur og Þórsmörk mynda tvo af fimm stöðum þar sem aðstaða er í boði fyrir ferðamenn sem ganga Laugaveginn.
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að þessi auglýsing muni valda því að aðrir ferðaþjónustuaðilar komi inn á svæðið í hagnaðardrifnum rekstri segir Ólöf að ef slíkt myndi gerast þá „já auðvitað myndi maður óttast að það gæti breytt ásýnd í Þórsmörk.“ Hún ítrekar þó að hún treysti því að áfram verði svipuð starfsemi á svæðinu og segist treysta á að sambærilegt samstarf og hefur verið við sveitarfélagið í gegnum tíðina.