Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar-, og háskólaráðherra, segir að uppsagnir þriggja fornleifafræðinga hjá Þjóðminjasafni Íslands komi ekki til vegna hagræðingarkrafna frá ráðuneyti sínu.
Þjóðminjasafn Íslands sagði fyrr í mánuðinum upp þremur fornleifafræðingum sem störfuðu við safnið. Harpa Þórsdóttir þjóðminjavörður segir í samtali við Ríkisútvarpið að uppsagnirnar komi til vegna hagræðingarkröfu.
Logi segir að uppsagnirnar komi ekki til vegna hagræðingarkrafna frá ráðuneyti sínu, heldur séu aðrar ástæður að baki uppsögnunum.
„Forstöðumaður er að bregðast við breyttri verkefnastöðu safnsins og þrengri fjárhagsstöðu sem kemur til vegna nýs stofnanasamnings sem er kostnaðarsamur og er gerður innan Þjóðminjasafnsins,“ segir Logi í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
„Þetta eru viðbrögð við því að verkefni safnsins eru nú með öðrum hætti en áður. Verið er að ráða inn bæði listfræðing og þjóðfræðing og með því verið að breyta aðeins áherslunum í rekstri safnsins. Þjóðminjavörður verður að svara fyrir það,“ bætir Logi við.
Sú ályktun er dregin af orðum Loga að uppsagnir fornleifafræðingana hafi verið nauðsynlegar til þess að hægt sé að ráða inn starfskraft með aðra menntun.
„Við erum með safngripi sem krefjast þess að listfræðingar komi að vinnu við það að meta, skrá og rannsaka. Einnig er hluti af okkar menningararfi ekki efnislegur og því skiptir máli að hafa þjóðfræðinga að störfum við safnið.“
Logi segir að þessar breyttu áherslur séu lagðar fram af Hörpu Þórsdóttur þjóðminjaverði og að hún hafi sjálf rökstutt þær í minnisblaði til ráðuneytisins.
Logi segist skilja hluta af þeirri gagnrýni sem að uppsagnirnar hafi hlotið, hann telur þó ekki hægt að bera saman þann fjölda fornleifafræðinga sem starfa við Þjóðminjasafn Íslands og þjóðminjasöfn erlendis.
„Það er verið að bera saman Ísland og nágrannalönd okkar en hafa þarf í huga að árið 2011 skiljum við að Minjastofnun og Þjóðminjasafnið. Fornleifarannsóknir á vettvangi eru því ekki innan Þjóðminjasafnsins eins og tíðkast sums staðar á nágrannalöndum okkar,“ segir Logi aðspurður hvort honum finnist gagnrýnin sanngjörn.