Farþegabátur varð vélarvana og rekur upp í sandfjöru utan við Ögur í Ísafjarðardjúpi. Aðstoðarbeiðni barst á tólfta tímanum og eru björgunaraðilar komnir á staðinn. 47 farþegar eru um borð í bátnum og hefur hópslysaáætlun verið virkjuð.
Að sögn Hlyns Snorrasonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Ísafirði, eru þrjú björgunarskip komnir að bátnum en farþegabáturinn sem um ræðir er Gunna Valgeirs.
Á Facbook-síðu Landhelgisgæslunnar kemur fram að tvær þyrlur gæslunnar, áhöfnin á TF-SIF eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, sjóbjörgunarsveitir á Vestfjörðum og áhöfnin á varðskipinu Þór hafi verið kallaðar út. Þar segir engar tilkynningar hafa borist um slys á fólki né verið tilkynnt um að leki hafi komið að honum. Sjólag á vettvangi er með besta móti en mikil þoka. Aðstoð varðskipsins var síðan afturkölluð
Hlynur segir að farþegarnir séu ferðamenn frá skemmtiferðaskipi sem er í höfninni á Ísafirði og var farþegabáturinn í hvalaskoðun með þá þegar hann varð vélarvana.
„Það er engin hætta á ferð. Hér blanka logn og aðstæður góðar,“ segir Hlynur við mbl.is.
Hann segir að farþegarnir verði færðir í björgunarbáta og farþegabáturinn verði í kjölfarið dreginn úr sandfjörunni.