Afnema lögin áður en þau valda frekara tjóni

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Innness, segir búvörulögin skaðleg neytendum …
Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Innness, segir búvörulögin skaðleg neytendum og skaðleg fyrir samkeppni á mikilvægum markaði. Samsett mynd/Kristín Bogadóttir/mbl.is/Hafþór

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Innness, segir mikilvægt að Alþingi klári það verkefni að afnema búvörulögin áður en þau valda frekara tjóni.

Hæstiréttur sýknaði ís­lenska ríkið af kröf­um Innn­ess í dag og sneri þannig dómi Héraðsdóms Reykja­vík­ur við í máli sem kennt hef­ur verið við bú­vöru­lög­in.

Skaðleg neytendum og samkeppni á mikilvægum markaði

Páll Rúnar segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að lögin séu skaðleg neytendum og skaðleg fyrir samkeppni á mikilvægum markaði.

Segir Páll að einnig verði að horfa til málsins í stærra samhengi. Löggjafarvaldið sé mesta vald samfélagsins, vald til þess að ákveða hvað megi og hvað ekki, vald til að stýra háttsemi borgaranna og mæla fyrir um réttindi þeirra og skyldur.

Litlar sem engar kröfur gerðar

Meðferð þess valds séu settar ákveðnar skorður í stjórnarskrá sem hafi það að markmiði að vandað sé til verka og ekki rasað um ráð fram.

Með þessum dómi sé hins vegar ljóst að Hæstiréttur geri litlar sem engar kröfur til Alþingis þegar kemur að breytingum á lagafrumvörpum á milli umræðna. Þar með gefi Hæstiréttur grænt ljós á óvandaða og lélega meðferð lagasetningarvalds eins og blasti við í málinu.

Sú niðurstaða sé högg fyrir allan almenning, því kröfuharðir og gagnrýnir dómstólar leiði af sér vandaða og vel ígrundaða lagasetningu. Eftirlátssamir og áhugalausir dómstólar leiði af sér hið gagnstæða.

„Það er varhugavert að horfa á þetta mál út frá hagsmunum einstaka markaðsráðandi stórfyrirtækja. Hér hefur opnast óeðlileg gátt til að lauma inn í lagasetningu skaðlegum ákvæðum sem engin lýðræðisleg afstaða hefur verið tekin til,“ er haft eftir Páli Rúnari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert