Ber að ofan og brjáluð við grunnskóla

Lögreglan þekkti til konunnar vegna fyrri afskipta.
Lögreglan þekkti til konunnar vegna fyrri afskipta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í dag vegna „brjálaðrar, öskrandi konu“ fyrir utan grunnskóla í Reykjavík. Reyndist konan vera ber að ofan þegar lögregla kom á vettvang en lögreglan þekkti til konunnar vegna fyrri afskipta. 

Kallaði lögreglan til sjúkrabifreið fyrir konuna þar sem hún virtist vera í geðrofi. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni hennar frá 5 í morgun og til 17 í dag. 

Braut rúður og skemmdi muni

Tilkynnt var um mann sem gekk berserksgang í verslunarkjarna þar sem hann braut rúður og skemmdi vörur og muni hjá nokkrum verslunum. Maðurinn var handtekinn en hann hafði sjálfur óskað eftir aðstoð vegna andlegra veikinda sinna. Manninum var komið í hendur heilbrigðiskerfisins. 

Það var lögreglustöð fjögur sem sinnti verkefninu en hún sinnir verkefnum í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Úlfarsárdal, Grafarvogi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. 

Maður með ógnandi hegðun á bráðamóttökunni

Tilkynnt var um mann með ógnandi hegðun á bráðamóttöku Landspítalans í dag. Starfsmenn spítalans vildu að manninum yrði vísað burt og aðstoðaði lögreglan við það.   

Í Kópavogi var 14 ára drengur stöðvaður á vespu þar sem hann var með farþega aftan á. Hafði drengurinn jafnframt ekki aldur til að aka vespunni auk þess sem búið var að eiga við vespuna þannig hægt væri að aka henni hraðar en hún ætti að komast. 

Lögreglan setti sig í samband við foreldra drengsins og var vespan handlögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert