Þau Hjördís Freyja Kjartansdóttir, 19 ára, og Brynjar Bragi Einarsson, 18 ára, eru yngst í stjórn UNICEF á Íslandi. Á ársfundi í dag var þeim þakkað fyrir ötult starf sitt í þágu landsnefndar UNICEF og réttinda barna.
Hjördís Freyja er stjórnarfulltrúi ungmennaráðs UNICEF og hefur setið í stjórn í þrjú ár, eitt ár sem áheyrnarfulltrúi og tvö ár sem fullgildur meðlimur.
„En ég hef unnið með UNICEF, frá því ég var í réttindaráði í grunnskóla, það eru næstum því sjö ár,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Brynjar Bragi er formaður ungmennaráðs og áheyrnarfulltrúi í stjórn. Hann hefur verið áheyrnarfulltrúi í stjórn í tvö ár og hefur setið í ungmennaráði í þrjú og hálft ár.
Sem grunnskólanemandi gekk Hjördís Freyja í Laugalækjarskóla, sem var fyrsti réttindaskóli UNICEF. Aðspurð segir hún það hafa leitt sig að starfi sínu í stjórninni.
„Ég skráði nafnið mitt á lista til þess að sækja um í réttindaráðið og nemendur voru síðan dregnir úr hatti. Þar með komst ég inn í réttindaráð og svo hefur þetta bara haldið áfram þaðan,“ segir hún.
Brynjar Bragi hafði setið í öðrum ungmennaráðum og síðar Reykjavíkurráðinu en þekkti einnig til starfsemi UNICEF á Íslandi í gegnum vini sína.
„Svo var verið að auglýsa eftir nýjum meðlimum og ég sótti um og nú er ég hér,“ segir hann.
Hver eru ykkar verkefni innan stjórnarinnar?
„Við erum að reyna að koma upp ungliðahreyfingu, sem yrði fyrir 18 til 25 ára og tæki þá við ungmennaráðinu. Svo er maður bara stjórnarmaður eins og allir hinir og ef eitthvað er þá tala ég örugglega meira en þau á fundum,“ segir Hjördís og hlær.
„Ég hef svo mikið að segja. Þannig að maður finnur eiginlega engan mun þrátt fyrir aldurinn, maður er bara í stjórninni eins og hver annar stjórnarmeðlimur og sinnir því starfi bara.“
Hvernig tilfinning er það að fá svona viðurkenningu fyrir ötult starf á ársfundi?
„Þetta munar ótrúlega miklu auðvitað en mér finnst ég samt fá viðurkenningu frá þeim í hvert skipti sem ég mæti. Hafandi verið í ungmennastarfi í svona mörg ár þá veit ég að það er ekki alltaf sjálfsagt að það sé hlustað á þig eða tekið mark á þér.
En hér finnur maður alveg fyrir áhrifunum sem maður hefur og það hafa alls konar verkefni verið uppfærð eða útfærð á annan hátt eftir því sem við höfum að segja. Mér finnst það vera stærsta viðurkenningin, fyrir utan tengslin og reynsluna. Þau eru líka svo skemmtileg, það hjálpar líka,“ segir Hjördís og tekur Brynjar undir þau orð.
„Manni er tekið ótrúlega vel og við finnum að við erum ekki fulltrúar í stjórn til þess að þau geti státað sig af því að vera með ungmenni í stjórn. Heldur erum við þarna af því að þau raunverulega vilja heyra hvað okkur finnst og fá „input“ frá okkur. Þau vita að með því að hafa ungmenni í stjórninni geta þau bætt starfið,“ segir Brynjar.